26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Pétur Jónsson:

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að fyrirliggjandi breyt.till. breytti lítið innihaldi þessa frumv., heldur að eins formi.

Fyrst og fremst er hlutaféð hið sama 500 þús. frá landssjóði og 300 frá Thorefélaginu, ef það notar forkaupsréttinn, sem því er ætlaður í breyt.till. En um slíkt þarf eigi að efast, eins og málið að öðru leyti blasir við.

Skipin er nærri sjálfsagt að séu hin sömu, svo framarlega sem Thorefélagið er nær eini hluthafinn í móti landssjóði. Hafi skipin verið góð eign, þegar frumv. var flutt fyrst, munu þau ekki óálitlegri eign fyrir landssjóðinn nú, að áliti stjórnarinnar.

Og þetta er aðal-innihald frumv., hvort sem það helst óbreytt, eða br.till. er samþ. Það verða að eins höfð botnaskifti, og sá botninn látinn snúa upp, sem áður sneri niður. Í raun réttri get eg als ekki séð, að þetta mæli svo mjög á móti breyt.till., en það mælir ekki hót með henni, og tryggingin er minni eftir henni fyrir því, að skipin séu með hæfilegu verði og góð, heldur en í upphaflega frumv.