26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Björn Sigfússon:

Þegar eg íhuga þetta mál og heyri undirtektir þess á þinginu, minnist eg þess, að hér kemur fram sem oftar, að fá mál eru svo, að þau ekki mæti mótspyrnu. Málið getur verið jafngott fyrir því.

Eg þarf ekki að svara þeim, sem hafa reynt að finna Thore-tilboðinu alt til foráttu. Hv. framsm. (B. Kr.) og hv. þm. Dal. (B. J.) hafa gert það svo rækilega um öll einstök atriði, að þar þarf litlu við að bæta.

Eg get þó ekki annað en minst á, þar sem minni hl. er að bregða meiri hlutanum um feluleik. Hvað skyldum við vera að fela? Þeir eiga eftir að benda á það. Eg mótmæli öllum slíkum getsökum. Annars rífa þeir sig sjálfir niður með eintómum mótsögnum og hugsunarvillum. Ýmist segja þeir t. d., að br.till. séu verri en frv. upprunalega, ýmist að það séu tómar orðabreytingar, ekki efnisbreytingar. Þetta getur þó ekki samrýmst. Um daginn þótti andstæðingum þessa frv. óheyrilegt, að nokkur skipin yrðu keypt eftir mati. Meiri hlutinn hefir fallist á að sleppa matinu og fela það stjórninni og kjörnum mönnum af þinginu að annast um skipakaupin. Nú finna þeir að því, að matinu sé slept. Svona er samkvæmni þeirra. Eg sé ekki betur, en að málinu ætti að vera vel borgið í höndum þeirra. Þegar þingið hefir kosið 3 menn, sem það treystir bezt, náttúrlega einn úr minni hlutanum, í stjórn félagsins, og ráðh. í broddi fylkingar að ráða þessu til lykta, getum við borið fult traust til að vel muni farnast. Sú stjórn tekur auðvitað þau skip að eins, sem hún álítur góð og gild, og áður en hún gerir út um kaupin, leitar hún aðstoðar sérfróðra manna og allra mögulegra upplýsinga. Andstæðingar vorir hafa lagt mikið kapp á að gera Thore-tilboðið sem tortryggilegast og meira að segja reynt að gera okkur, sem erum með tilboðinu, tortryggilega. En hvers vegna skyldu þeir hafa sótt málið frá sinni hlið með svo miklu kappi og ákafa, af engu nema því að þeir sjálfir eru að reyna að fela það, að þeir koma hér fram sem ófyrirleitnir málafærslumenn Sameinaða félagsins.