26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður minni hlutans (Jóhannes Jóhannesson):

Eg hefi hér tvö tilboð frá því Sameinaða, innifalin í ferðaáætlunum þeim, sem hér liggja fyrir. Eg hefi ekki fengið þær fyr en í dag og því hefir ekki verið tími til að leggja þær fram prentaðar nú, en hins vegar skoraði eg á formann samgöngumálanefndarinnar að kveðja til fundar í nefndinni, en hann taldi öll tormerki á því og úr því varð ekkert að lokum. Síðan bauð eg nefndinni að koma heim til mín að sjá tilboðin og íhuga þau, en það vildi hún ekki, að eins einn maður úr meiri hlutanum, h. þm. N.-Þing. (B. Sv.) kom og skoðaði þau. Eg hefi því gert alt, sem í mínu valdi hefir staðið til að fá nefndina til að kynna sér tilboðin, en það er hún sjálf, sem hefir verið svo fjarri allri samvinnu að vilja það ekki og mér verður heldur ekki gefið að sök, að tilboðin ekki hafa komið fyr fram, því það var nefndin í heild sinni, sem átti að útvega þau, en ekki einn nefndarmaður úr minni hlutanum, þótt svo hafi nú farið. Nú getur hver sem vill fengið að sjá þau og kynna sér þau. Viðvíkjandi fyrirspurn háttv. þm. Snæf. (S. G.), hvort ekki sé of snemt að drepa Thoretilboðið enn þá, þá álít eg að svo sé ekki. Eg var með því að Thoretilboðið gengi til 2. umr., til þess að það Sameinaða gæti séð, að það var alvara á bak við í þinginu, ef félagið ekki byði betri kjör; nú þarf þess ekki lengur. Nú hefir félagið gefið bindandi tilboð, sem það ekki getur gengið frá, þótt það vildi og er þá eigi ástæða til að lengja frumv. aldur og vænti eg að það verði nú felt.