08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Eg get að mestu leyti vísað til nefndarálitsins, og skal því að eins taka fram örfá atriði.

Nauðsynlegt skilyrði fyrir vexti og viðgangi þilskipaútvegs er það, að góð vátryggingarfélög séu í landinu. Að vísu eru hér fáein vátryggingarfélög, en þau eru mjög ófullkomin, þar eð þau ráða yfir litlu fé og hafa ekki átt kost á endurtryggingu. Auk þess er starfsemi þeirra að mestu leyti staðbundin. Hér er því tilfinnanlegur skortur á vátryggingarfélögum, og hefir hann staðið íslenzkum þilskipaútvegi mjög fyrir þrifum, og auk þess leitt hann inn á skakt spor. Nú geta engir aðrir en ríkir menn átt skip hér. En þilskipaútvegur getur ekki þroskast á eðlilegan hátt, fyr en það er á almennings færi að taka þátt í honum, en til þess það geti orðið, eru góð innlend vátryggingarfélög nauðsynleg.

Hingað til hafa menn að mestu leyti orðið að vátryggja í útlendum félögum, og hefir það verið mjög skaðlegt fyrir útveg okkar. Hin útlendu félög hugsa ekki um annað en að tryggja sig gegn skaða með mjög háum iðgjöldum; menn hafa hingað til getað fengið vátrygging fyrir því sem þeir hafa viljað, án þess sett hafi verið nokkur skilyrði eða reglur um útbúnað skipanna, er dragi úr hættunni. Þetta leiðir af sér hærri »Forlis-procent«, því útbúnaði skipanna er auðvitað oft ábótavant, þegar engar reglur eru um hann settar, enda því meiri freisting fyrir menn til að vera hirðulausir og jafnvel gerast vísvitandi valdir að tjóni, þegar þeir hafa vátrygt fyrir hárri upphæð. En hækki »Forlis-procenten«, þá hækka iðgjöldin einnig að sama skapi; því fleiri skip sem farast, því meiri peninga útlátum verða félögin fyrir, og því hærri iðgjöld heimta þau til að vinna upp skaðann. — Útlend brunabótafélög hafa farið að á sama hátt; þau hafa engin skilyrði sett, er dragi úr brunahættunni, og því hafa brunar verið talsvert tíðir, og iðgjöldin þar af leiðandi farið síhækkandi á síðari árum.

Úr þessu á »samábyrgðin« að bæta. Fyrst með því að vátryggja skip og báta, sem ekki eiga kost á að fá vátrygging í öðrum innlendum félögum. Þar næst með því, að taka að sér endurtrygging fyrir innlend félög. Loks á hún að draga úr hættunni með því að setja nauðsynlegar reglur um útbúnað skipanna, og með því að ákveða, að talsverður hluti af verði skipsins skuli vera í sjálfsábyrgð. Þá verða menn varkárari og hirðusamari.

Eg get upplýst það, að elzta vátryggingarfélagið á Íslandi hefir ekki tekið hærri iðgjöld en 5% árlega, og hefir þó vátrygt nálega öll skip við Faxaflóa. Þrátt fyrir mikil óhöpp hefir félagið getað greitt öllum alt, og á nú í sjóði c. 50,000 kr. Það sýnir, að iðgjöldin þurfa ekki að vera há, ef þess er gætt, að eftirlit með útbúnaði skipanna sé gott.

Nefndin hefir komið með þrjár breyt tillögur.

Í 1. gr. frumv. er gert ráð fyrir, að samábyrgðin, hin staðarlegu félög, er fá endurtrygt í henni, og vátryggjendur, skifti með sér ábyrgðinni eftir hlutföllunum 4/10, 8/10, 8/10. Þessu höfum við breytt aðallega með tilliti til Faxaflóafélagsins, sem hefir það ákvæði í lögum sínum, að vátryggjendur skuli hafa 25% í sjálfsábyrgð, og hefir það reynst vel. Það hefir sýnt sig, að það er fullnægjandi til þess, að eigendur vilji sporna við því að tjón verði á skipum þeirra. önnur ástæða, er mælir með þessari breytingu, er sú, að það getur komið fyrir, að skip sé veðsett fyrir meir en 70%; það geta hvílt á þeim 75%. — Breytingin að staðarlegu félögin skuli ábyrgjast 35% í stað 30% getur ekki verið varhugaverð; það er ekki meiri áhætta fyrir þau að taka sér trygging á 35% heldur en fyrir »samábyrgðina« á 40%.

Þá höfum við komið með breyt.till. við 4. gr. frv. Þar er ákveðið, að samábyrgðin megi ekki taka að sér endurtrygging fyrir einstakt félag yfir 60,000 kr. Eg veit ekki hvernig þetta hefir slæðst inn í frv., en líklega hefir það vakað fyrir þeim, er frv. sömdu, að samábyrgðin tæki á sig í einu lagi ábyrgð, er nemi þessari upphæð fyrir hvert einstakt félag, en við ætlumst til, að hún taki jafnóðum sinn hluta af ábyrgðinni á hverju einstöku skipi. Enda kæmi svo lítil upphæð að litlum notum. Fyrir elsta félagið, Faxaflóafélagið, mundu eigi full not verða af minnu en 200,000 kr. ábyrgð. Ætti ákvæðið um 60,000 kr. hámark fyrir hvert einstakt félag að halda sér, yrði að þrískifta Faxaflóafélaginu, þannig að t. d. yrði einn hluti þess í Reykjavík, annar á Seltjarnarnesi o. s. frv. En það kæmi í sama stað niður fyrir samábyrgðina; hún hefði sömu áhættu eins og þó eitt félag væri. — Við leggjum því til, að þetta ákvæði verði felt í burtu.

Hvað hagsmunatrygging á afla, veiðarfærum og útbúnaði snertir, þá er ástæðan sú sama þar. Samábyrgðin tryggir þar þann hluta, sem lögskipað er að hafa á skipi, en tryggir þar á móti ekki félagið í heild sinni.

Með 6. gr. er svo ákveðið, að tjón sem nemur fullum 2% af tryggingarupphæðinni eða meiru, verði ætíð bætt, og sömuleiðis tjón er nemur fullum 500 kr., þó að það kunni að vera minna en 2%. En aftur er ákveðið í sömu grein, að nemi tjónið meiru en 500 kr., skuli draga þessa 2% af tryggingarupphæðinni frá skaðabótunum. Þetta síðasta atriði um frádrátt hefir nefndinni virzt rangt, og leggur því til að það falli burt. því að sjá má það af dæmum, hversu þetta ákvæði mundi verka. Skip, sem trygt er fyrir 25 þús. kr., en bíður tjón fyrir 600 kr., fær að eins 100 kr. bættar, en skip, sem er trygt 24,000 kr., fengi skaðann bættan að fullu. Þess vegna ráðum við til, að strikað sé yfir þennan síðasta »passus«. En það heppilegasta væri máske, að búin væri til »skala« yfir vátryggingarupphæðirnar, og þá væri ákveðið, hversu mikið skyldi draga frá, bæði í hlutfalli við vátryggingarupphæðina og tjónið, sem skipið yrði fyrir. Það væri auðvitað bezt að gera í reglugjörð, því að það er of umfangsmikið í lögunum.

Eg hefi þá ekki meira að segja að sinni, en óska lögunum góðs gengis, því að það er mín sannfæring, að þetta verði ekki að eins til þess, að gera sjávarútveginn tryggari, heldur verði slíkt ábyrgðarfélag, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að styðja hann og efla.