26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Það kom eigi neitt nýtt fram í ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), nema það, að engin ósk hefði komið frá þjóðinni í þessa átt. Hann hefir auðsjáanlega ekki munað eftir þeim óskum, sem hvað eftir annan hafa fram komið á þingmálafundum, um kælirúm í millilandaskipunum, og hefi eg áður skýrt frá því, hve nauðsyn oss sé á að geta flutt út nýtt kjöt og nýjan fisk, og liggur í augum uppi, hvílíkur hagnaður væri fyrir oss, ef vér gætum farið að selja nýtt kjöt til þeirra landa, sem vér nú ekki getum selt neitt til. Í Noregi er aðalmarkaðurinn fyrir kjöt okkar, en mjög svo takmarkaður, og er óskir koma frá þjóðinni, eins og hér á sér stað, í þá átt að auka markaðinn á þennan hátt, hljótum vér að taka tillit til þeirra. — Eins og stendur eru eigi aðrir möguleikar fyrir hendi en að landið sjálft hefjist handa, og als eigi rétt að ganga lengur fram hjá þessum óskum þjóðarinnar um betri samgöngur og kælirúm í skipunum. Það sem háttv. þm. sagði um, að þetta væri eigi að vilja þjóðarinnar, þá er það ekki rétt, og ef bera á undir þjóðarinnar dóm eitthvert mál, verður það efnið en ekki formið, sem hún á að fella sinn úrskurð um. Þar að auki er ekki venja að bera hin einstöku mál undir þjóðina — á þessu þingi eru þannig einungis tvö mál, sem lögð hafa verið undir atkvæði þjóðarinnar sérstaklega. Það stendur og eigi nærri alt af svo á, að hægt sé að bera málin undir atkv. þjóðarinnar. Meira að segja þingmenn sjálfir hafa eigi fengið stjórnarfrumv. fyr en rétt fyrir þing, og þá enginn tími til að leggja þau fyrir kjósendur.

Það var engin ný mótbára hjá hinum háttv. þm. (Sk. Th.), að hið Sameinaða gufuskipafélag myndi eins eftir sem áður halda áfram siglingum hér við land, en öllum atriðum viðvíkjandi samkepni hefi eg þegar svarað rækilega áður, og vil eigi fara að endurtaka það. Það er auðvitað alveg rétt, að ef landssjóður gerir sjálfur út verður hann jafnt að halda uppi samgöngum við þá staði, sem borga sig verst og þá sem betur borga sig. En auðvitað leggur hann tillagið til sinna eigin skipa, og það er einmitt ætlað til þess að haldið verði uppi ferðum til þessara hafna, sem ver borga sig; þeirra vegna er styrkur veittur.

Þá talaði háttv. þm. um hið ágæta tilboð, sem komið væri frá »Sameinaða gufuskipafélaginu«, en þessu tilboði — með öllum þess miklu kostum er nú svo varið, að engin ferð er áætluð kringum landið frá 23. febrúar þangað til í júnímánuði. Og þetta tilboð kemur fyrst, er félagið sér, að hætta er á ferðum, að það verði af samningum við þing og stjórn. En hve lengi eigum vér að láta þetta félag teyma okkur þannig á eyrunum?

Það er alveg rétt, sem hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að ráðherra vor hefði enga sérþekkingu í þessu máli, en svo er um flesta ráðherra, og þá verða þeir að leita til sérfræðinga um aðstoð og upplýsingar. Sama er að segja um þá 3 menn, sem hann hefir með sér í stjórn eftir frv., en þeir geta þó að minsta kosti hjálpað honum til að finna sérfræðingana. Þetta veit hinn háttv. þm.

Þá heldur hann, að þjóðin muni láta sér nægja að bíða; já, hún getur beðið til næsta þings, en eg er viss um, að mínir kjósendur mundu mér þakklátir fyrir, ef mál þetta kæmist sem fyrst í framkvæmd. Hann talaði um, að vér hefðum eigi til kjöt til útflutnings nema á vissum tíma árs — einu sinni á ári — en menn þurfa að læra að hafa vöruna til á sem flestum tímum árs. Hvenær sem nýtt fyrirtæki kemst á stofn í líka átt verður fyrsta stigið að læra að nota það. Og þegar á alt er litið erum við eigi illa undir svona fyrirtæki búnir, því að vér höfum búnaðarfélög og ráðunauta, sem geta leiðbeint bændum og framleiðendum. Um fisk má það segja, að hann muni til vera á flestum tímum árs. — Eg sé það á öllu, að hann álítur, að vér höfum eigi þá þekkingu, sem þörf sé á til slíks fyrirtækis, en eg hlýt að játa það, að eg efast um, að vér verðum orðnir það þroskaðri 1911, að vér séum þá færari um að takast þessu líkt fyrirtæki á hendur, en nú, eða höfum þá fengið þá sérþekkingu, sem þörf er á.

Þá er þessi dagskrá hins háttv. þm., sem eg hlýt að mótmæla eindregið að verði samþykt. Það er kominn tími til fyrir oss að taka þessa atvinnugrein í vorar eigin hendur, og ættum vér eigi að þurfa að láta segja oss það tvisvar, er jafngott tækifæri býðst og nú, til að koma einu af mestu þarfamálum vorum í framkvæmd.