24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

76. mál, farmgjald

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þetta frumv. kvað vera frá meiri hluta tollmálanefndarinnar, en eg, sem var í minni hluta, var þessu mótfallinn, og þótti þetta illa ráðið af meiri hlutanum. Það hefir verið talað um að nota þetta til þess að bæta upp aðflutningsbannið, eða fylla það skarð og jafna þann tekjuhalla, sem aðflutningsbannið hlýtur óhjákvæmilega að valda landssjóði.

En bannlögin komast ekki í gildi fyr en í árslok 1912, ef það verður þá fyr en 1915; og síðustu árin áður verður auðvitað mjög mikill tollur. Það ber því enga þörf til að flaustra nú af vanhugsuðum toll-lögum og slíta þau út úr öllu sambandi við skattamál landsins. Það er nægur tími á næsta þingi 1911 til að fara að gera lög til uppbótar tollmissinum af áfengi. En það er alt annað mál, að þetta mun eiga að vera nokkurs konar flotholt, til að fleyta fram frv. um kaup á Thorefélagsskipunum.

Annars eru ákvæði þessa farmgjaldsfrumv. vanhugsuð og ranglát í alla staði. Leggja jafnmikið á pundið í gulli, silfri, silki, eins og í járni, kornvöru, pappír, soda o. s. frv., og tolla þannig alt, sem varningur heitir, nauðsynjavöru jafnt sem óþarfa. Eg veit að allir munu þekkja málsháttinn: »Gefðu fjandanum litla fingurinn, og hann mun gleypa alla hendina«. Svo veit eg, að það örþrifaráð mundi tekið verða, hve nær sem á þætti þurfa að halda, að hækka þennan toll um svo og svo mörg prócent. Og það þarf naumast að kvíða fyrir því, að ekki verði nægilegur tekjuhalli, af öllu þessu spilaborgarbraski stjórnar-gæðinganna. Háttv. flutnm. (B. Kr.), talaði mikið um það, að hann hefði þetta alt útreiknað, og fjasaði undrin öll um reikningsvizku sína. Hann meir að segja rakti í sundur lið fyrir lið, hve margar prócentur legðist á verð hverrar vörutegundar; en hverjum heilvita manni er auðsætt, að það er ógerningur. Tökum t. d. klukkur og úr, sem flutnm. telur einn flokk. Hvernig í dauðanum fer hann að reikna út, ef 25 au. gjald er á pd. eða teningsfet, hvað miklu það gjald nemi af verðinu. Sumar klukkur eru stórar, úr örsmá sum. Af tveim jafnstórum úrum getur annað kostað 4 kr. en hitt 400 kr.

Allur hans verðreikningur er helber vitleysa og ekkert annað.

Hann segir gjaldið svo lágt, að það verði ekki tilfinnanlegt. 25 au. á 100 pd. af rúgi, verða 50 au. á tunnuna; og kaupmaður leggur auðvitað á þetta 50 au. gjald eina 25 au. til. Þá er rúgtunnan stigin um 75 au. Hefði nú tunnan farmgjaldslaust verið seld á 14 kr., þá hækkaði verðið um meira en 5%. Fátæklingar finna til þess. — Soda þurfa allir að kaupa. Þegar hann kostar kaupmann 1 kr. 100 pd. í innkaupi, og þar við bætist 25 au. í farmgjald, þá er innkaupsverðið hækkað um 20% eða ?.

Í pottatali verður að selja steinolíu 1 eyri dýrara pottinn. Það eru einmitt fátæklingarnir, sem verða að kaupa einn pott af henni í einu. Og þá munar um hvern eyrinn.

Svo eru undantekningarnar. Af því að 2. þm. Rvk. (M. Bl.) var ekki um þetta gjald gefið, þá undantók flutnm. timbur, rúðugler, sement og kalk — byggingaefni — til að friða hann. En þótt þetta sé nauðsynjar, þá er það ekki meiri nauðsynjavara en korn, sóda, steinolía og margt annað. Þetta er jafnt hrossakaupaverk sem handahófsverk.

Hinn heiðraði framsm. (B. Kr.) talaði um að þetta væri hér um bil sama sem faktúrugjald. Nei, það er svo ólíkt eins og eir og gull. Faktúru-tollur er tollur á verði varnings, en ekki þunga eða rúmmáli. Faktúru-tollur er að því leyti eins sanngjarn tollur eins og farmgjaldið er ósanngjarnt. — Hitt er annað mál, að hér yrði líklega mjög örðugt að koma faktúru-tolli við, því að kaupmaður getur látið setja hvaða verð, sem hann vill, í faktúru sína.

Frakkar hafa þó reynt það gjald (faktúru-toll), og höfðu þau ákvæði í lögunum, að ef tollheimtumanni þótti ástæða til, gat hann tekið vöruna af kaupmanni, og eignaðist landssjóður hana þá gegn því að borga kaupmanni faktúru-verðið. Með því móti var ekki eigandi undir því fyrir kaupmann að setja á vöruna lægra faktúru-verð heldur en það sem hann hafði sjálfur gefið fyrir hana.

Skattamálin eru svo mikilsverð, margbrotin og vandasöm, og standa öll í svo nánu sambandi, að ógerningur er að taka svona eitt þeirra og ætla að flaustra því af á fáum dögum. Væri slíkt tekið til bragðs, yrði það sú mesta afmán. Eg leyfi mér því að skora á háttv. flutnm. (B. Kr.) að taka tillögu sína aftur, annars vona eg að hún verði steindrepin að öðrum kosti; því hún er þannig vaxin, að hörmuleg fásinna væri að samþykkja hana.