24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

76. mál, farmgjald

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Það ætlar ekki að verða endaslept þetta þóf á milli okkar háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) og mín, því alt af eru skoðanir hans gagnstæðar mínum skoðunum, þannig að hver um sig er alt af á sínu máli. (Jón Ólafsson: Saman um sumt). Það er víst fátt. Hann, þessi háttv. þm. (J. Ól.) lét þess getið, að hið mesta ósamræmi hefði drottnað í nefndinni. En þá er þar til að svara, að slíkt er fjarlægt sannleikanum, því eg hygg að sjaldan hafi verið jafn gott samkomulag og samræmi í nokkurri nefnd, enda slík ummæli höggið of nærri honum sjálfum.

Eg get fullvissað háttv. þm. (J. Ól.) um að bannlögin muni koma í gildi árið 1912 en ekki 1915. Flotholtstilgátan, í tilefni af Thorefélags-tilboðinu er ekki sannsýnileg, því eg mun ekki hafa gefið neitt tilefni til þess, að slíku væri beint til mín. En hér er hann í sinni réttu mynd, og fylgir sínum gamla vana, því honum hefir ávalt staðið á sama hvað hann hefir sagt um menn og málefni, sama hvort hann hefir haft rangt mál að verja eða rétt, barist með réttu eða röngu. Hann sagði að % væri ákaflega ójafnt á öllum vörum. En nú er því þó svo varið samkvæmt núverandi tolllöggjöf, að á hverju sykurpundi t. d. er tollurinn um 60%. En enginn tollur t. d. á silki. Þegar talað er um jöfnuð á tolli á vörum, eins og nú stendur, þá er ekki annar vandinn, en líta á tolllögin. En þar er nú beitt hinum mesta ójöfnuði sem unt er. Sú skoðun hefir komið fram, að þessi hái tollur væri eins og hegning á þá, er þessar vörur nota, og þeir eru margir. — Fyrir hálfri öld eða jafnvel fyrir 20— 30 árum síðan, voru þessar vörur skoðaðar ónauðsynlegar, og enn eru þær nefndar ónauðsynjavörur eða munaðarvörur, þó enginn geti borið á móti því, að þær eru nú álitnar eins nauðsynlegar á hverju heimili, eins og maturinn manni.

Þetta hefði auðvitað ekki verið gert, ef ekki hefði nauðsyn borið til að afla landssjóði tekna á þann hátt, en þessi tollálagsstefna hefir hvergi þrifist nema á Íslandi. Ekki verður annað sagt, en mjög rétt sé farið að með því, að leggja um 1% á hverja vörugrein. — Þrátt fyrir nákvæma umhugsun og athugun, þá hef eg ekki getað fundið aðra heppilegri leið. Hann sagði, að lagðar væru 4% á steinolíu, en það má auðvitað eins leggja 1% á hana, ef svo sýnist. Eg tók það fram, að frumv. þetta kæmi fram til þess að geta haft reynsluna fyrir sér árið 1911, þegar skattamálin kæmu fyrir, að þá yrði eitthvað til að byggja á, og að þá yrði þetta frumv. endurskoðað. — Annað eða meira er ekki meint með þessu frumv., hvað sem hinn háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) vill teygja út úr því með sinni alkunnu góðgirni.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að með þessari aðferð væri ómögulegt að fá réttan og ábyggilegan tollstofn, og því talaði hann um frestun þessa máls til næsta þings. Á næsta þingi er líka hægt að haga sér eftir því, sem reynslan þá hefir sýnt, hækka gjaldið á sumum vörutegundum og lækka á öðrum, þó eg geri ráð fyrir, að breytingin verði ekki mikil. — Hér á landi stendur alveg sérstaklega á, þar sem landið hefir enga tollþjóna og þolir ekki að borga þeim, þess vegna verður að finna aðrar leiðir, en önnur lönd nota, til þess að ná í tekjur; hér er ekki hægt að taka á toll-álögum með öðrum eins silkihönskum og gert er í útlöndum, þar sem æfður tollþjónn er á hverju strái, sem þekkir nákvæmlega vörutegundirnar, samsetning þeirra og gæði, sem toll-álagið fer eftir.

Eg veit ekki til þess, að lögreglustjórar vorir séu svo verzlunarfróðir, að þeir geti dæmt um vörugæði, og eg held því, að háttv. 2. þm. S -Múl. (J. Ól.) sé því óhætt, að vera á þeirri skoðun, að slíkt sé óframkvæmanlegt hér á landi, að miða toll eftir vörugæðum og dýrmæti, eða fara nær því en meiri hluti nefndarinnar hefir gert í þessu frumv.

En eins og eg tók fram í dag, þá verður að ransaka þessa leið þegar í stað, því það er of seint 1911.