24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

76. mál, farmgjald

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Eg bið ekki um orðið til að mótmæla eða mæla með þessu frumv. Nú er mjög liðið á þingið, en eg hef ekki haft tíma til að rannsaka eða athuga allar tillögur frumv. Það getur ef til vill verið einhver skynsamlegur kjarni í aðalatriði þess því aðal-atriði, að útvega landssjóði fé á þennan hátt. En maður verður að gera sér grein fyrir því, hve miklu þetta muni nema fyrir landssjóð. Eg hef ekki íengið neinar upplýsingar frá háttv. frmsm. (B. Kr.) um það, hve mikill muni verða tekjuauki landssjóðs af þessu.

Eg sting upp á því, að mál þetta sé að eins rætt, en ekki afgreitt frá þinginu sem lög, því að það er of lítill tími til að fjalla rækilega um það. — Það er sjálfsagt réttara að fela það millþinganefndinni í skattamálunum til athugunar til næsta þings. Eg tel víst, að frumv. þurfi mikið að breyta, og því legg eg þetta til, að því verði vísað til þeirrar nefndar. Eg vil og minna á það, að allar tillögur hennar voru lagðar fyrir þetta þing og faldar nefnd til athugunar í þingbyrjun. — Enn þá hefir sú nefnd ekkert látið til sín heyra um þau efni, og var það þó víst tilætlunin, að hún gæfi út álitsskjal um till. milliþinganefndarinnar. Það álitsskjal kemur væntanlega bráðum eða einhvern tíma áður en þingi slítur. Milliþinganefndin ætlar, eins og kunnugt er, að yfirvega öll skatta- og tollmálin á ný fyrir næsta þing, og því sýnist rétt og sjálfsagt, að hún fái líka tillögur þessa frumv. til athugunar.