24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

76. mál, farmgjald

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg hef lítið að segja. Eg skal fyrst vísa frá mér svívirðingarorðum háttv. 1. G.-K. (B. Kr.). Hann sagði, að mér væri sama, hvað eg segði um menn og málefni. Mér þykir hæfa að benda á, að hann hefir þrisvar í dag verið á fám mínútum staðinn að því að fara með lygi, og einu sinni að minsta kosti vísvitandi.

Hann skýrði frá því, að tilgangurinn með frumv. væri sá að útvega skýrslur. Á nú að fara að leggja almennan toll á alla landsmenn, þann toll, er nemur tugum þúsunda króna, að eins til þess að ná í skýrslur? Hann hefir líka nýlega fengið samþykt frumv. um verzlunarskýrslur og hefði því verið innan handar að koma þar inn skýrslum þeim, sem hann vill fá í þessu efni, — ef hann annars skilur sjálfan sig.

Eg skal ekki fara langt út í það, hversu mikið ósamræmi er í því, hve misjafnt gjald er lagt á vörurnar; á þarfa-vöru eins og t. d. sóda á að leggja 20—25%, og nær það ekki nokkurri átt.

Það mun stafa af því, að þeim þykir nauðsyn að bæta upp tekjuhallann, sem af aðflutningsbanninu leiðir, að nú á að hroða af þessu frumv. En nú er ráðgert í efri deild, að aðflutningsbannið komist ekki á fyr en 1915. Hinn háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) segir, að það komist á 1912. En er þá ekki þing 1911, og er ekki nógur tíminn að koma með þetta frumv. þá? Ekki er hætt við öðru, en að nóg verði pantað af sopanum 1911 til þess að birgðir verði til, og mun tollurinn af þeim birgðum vega upp í móti tekjuhallanum af aðflutningsbanninu. Það er því gersamlega nauðsynjalaust að hroða þessu frumv. nú af. Á næsta þingi verður vonandi skattamálafrumv. borið upp nógu snemma, svo að ekki þurfi að flaustra því af.