26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

76. mál, farmgjald

Pétur Jónsson:

Eg ætla ekki að tala mikið um þetta mál, þótt það sé í rauninni mikilsvert; mér hefir ekki gefist kostur á að íhuga það nógu rækilega. Eg álít, að þetta mál hafi ekki fengið þann undirbúning, að hægt sé að greiða atkv. um það með fullum rökum.

En eg vil að eins gera athugasemd við það, að þetta frumv. er sett í samband við verzlunargjald (faktúrugjald), og sé þó ekki, að það eigi neitt verulega skylt við það. Verzlunargjald er verðtollur og að því leyti ólíkt öðrum tollum, er reiknast eftir máli og vigt, og verðtollar hafa verulega yfirburði, þegar þeir eru framkvæmanlegir. Eg vil líka stuttlega taka það fram, að sá ókostur er á verzlunargjaldi, að það legst á lífsnauðsynjar jafnt og aðrar vörur og þess vegna á þá menn, sem ekkert gjaldþol hafa. Það þykir mikill annmarki. En af því að eg býst ekki við, að verzlunargjald geti orðið mjög hátt sem hundraðsgjald, þá er ekki ástæða til að vera því mótfallinn. En þetta gjald hefir sama annmarkann að þessu leyti, þar sem það er á lífsnauðsynjum, en legst einmitt á þær með margföldum þunga, af því að flestar lífsnauðsynjar eru þungavara. Það gæti verið réttmætt að setja lítið bráðabirgðagjald, en ekki hátt eða neitt megingjald; þar á móti er verzlunargjald vel fallið til þess.

Eg skal játa, að gjald þetta er framkvæmanlegra og léttara í innheimtu, en verðtollur eða verzlunargjald.