01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

76. mál, farmgjald

Jón Ólafsson:

Eg verð að taka undir með háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og vera honum samdóma um það, að frumv. sé vanhugsað og slitið út úr skattalöggjöf landsins og þar að auki svo illa undirbúið, að ekki geti komið til mála að hrapa að því að samþykkja það á þessu þingi.

Annars hefi eg aldrei heyrt jafnskringileg umyrði eins og þau hjá h. þm. G. & K. (B. Kr.) að kaupmenn varðaði ekki um þetta mál. Hverja skyldi varða það meira? Hafa þeir ekki mesta reynslu í þessu máli? Eg hefi aldrei heyrt, að bændur varðaði ekkert um búnaðarmál eða sjómenn um mál þau, sem viðkoma sjávarútveg. Kaupmenn eiga að vera eina stéttin í landinu, sem ekki varðar um atvinnuveg sinn. Sízt hefði mig varað að heyra slíkt af vörum kaupmanns, og ekki öfunda eg hann af orðstír þeim, sem hann getur sér meðal stéttarbræðra sinna við framkomu sína í þessu máli. Háttv. þm. kannaðist við það, að málið væri alveg óundirbúið, enda er ómögulegt að hafa minstu hugmynd um, hversu miklum tekjuauka landssjóður gæti átt von á, ef þetta yrði sþ. og jafnómögulegt að fá nokkra hugmynd um, hve miklu tollurinn nemi af verði mýmargra vörutegunda. Þar að auki eru í frumv. allar vörur tollaðar jafnt eftir þunga eða rúmmáli, hvort heldur er matvæli. eldspýtur, stál, kol og annað það, sem alment eru kallaðar lífsnauðsynjar eða silkið, sem háttv. flutnm. verzlar með. Þar að auki eru, eins og bent hefir verið á, lagður tollur á umbúðir vörunnar, sem oft als ekki eru eign þess, sem vöruna fær, heldur léðar utan um sendinguna og endursendar svo. Af þessum umbúðum hefir viðtakandi engan hag og það er því gersamlega rangt að leggja toll á lánaðar umbúðir. Eg held, að úr því að skattamál landsins eiga að koma fyrir næsta þing, þá sé bezt að láta þetta mál bíða, þangað til því máli verður ráðið til lykta.