01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

76. mál, farmgjald

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Eg vona að háttv. deild lofi þessu frv. að ganga sinn veg upp í Ed. Eg mótmæli því, að þetta mál sé vanhugsað. Það stendur ekki í sambandi við neina þörf á því, að milliþinganefnd athugi það. Eins og kunnugt er, þá gerði milliþinganefndin ekki ráð fyrir aðflutningsbanni á áfengum drykkjum. Hér er hentug leið fundin til þess að bæta upp þann tekjuhalla, er landssjóður verður fyrir, vegna aðflutningsbannsins. Það er margtekið fram, að milliþinganefndin hefir ekki betri gögn í höndum til þess en þingnefndin.

En svo eg snúi mér aftur að sjálfu frumv., þá get eg staðhæft að me𠽗1¼ prc., eru allar þær vörur, sem finnast í skýrslunum frá 1906, rétt útreiknaðar, nema kartöflur, sem stafar af ritvillu. Aðrar vörur, sem tilgreindar eru að eins í krónum, getur ef til vill orðið nokkur ágreiningur um og

til þess að geta fundið hinn rétta mælikvarða, þarf sú athugun að ná yfir tveggja ára tímabil. Eg tók það fram um daginn, að tolllögin eru nú mjög ónákvæm og beinlínis ósanngjörn og óréttlát, að því er mér virðist, og þess vegna þurfti háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) ekki að vera að gera mikið úr því þó smáójöfnuður fyndist í þessu frv., sem ekki mundi nema meiru en ½—1%, frumv. sem á að lifa óhaggað að eins í 2 ár.

Háttv. þingm. þekkir víst tollinn á sykri, kaffi og fleiru; þar er ekki um mikinn jöfnuð að ræða, mikið minni jöfnuð en felst í þessu frumv. Og þó að farmgjald þetta væri hnífjafnt lagt á vörurnar í »prósentum« í frv., hvaða tryggingu hefir háttv. þingm. þá fyrir því, að kaupmenn leggi tollinn jafnt á, þegar þeir fara að selja vöruna? Eg ætla að benda á, að enginn tollur er nú á silki né öðrum vefnaðarvörum og virtist mér þó mjög eðlilegt að svo væri. Það er satt, sem sami háttv. þm. sagði, að óeðlilegt væri að tolla umbúðir. Eg hefi verið við verzlun í mörg ár, þar sem mikið var selt af tóbaki, en umbúðirnar voru sama sem engar. Þó að væru teknir 25 aurar af hverjum 100 pundum tóbaks, með umbúðum, þá munaði ekki mikið um það í verðinu. Þetta frumv. er búið að vera nokkuð lengi til umræðu hér í deildinni, enda ætti ekki að þurfa að ræða það mikið frekar, þar sem meiri hlutinn er því samþykkur. Það er hægt að sneiða hjá öllum göllum farmgjaldsins, og engin hætta á því, að það reynist skaðlegt, eins og einn nefndarmaður hélt fram. Mér virðist málið liggja svo afarljóst fyrir og að örðugt sé að finna betri mælikvarða fyrir skattgjaldi. Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði, að bannað yrði að flytja vörur í land fyr en búið væri að greiða farmgjaldið af þeim að fullu. Það er satt, að banna má að flytja vörurnar í land, fyr en gjaldið er greitt, og svo er það með allar tollskyldar vörur, en venjulega leyfa þó lögreglustjórar að flytja þær í land án þess, þó að löggjöfin skýrt ákveði um hið gagnstæða. Það er að eins undantekning, ef lögreglustjórar fara öðruvísi að, og þá eingöngu sprottið af vantrausti til þess kaupmanns, er á hinar tollskyldu vörur. Þess vegna eru slík ákvæði hættulaus í framkvæmdinni, en verða þó að vera svona til þess hægt sé að ná tollinum hjá óreiðumönnum. Eg tel rétt, að tollar nái til als almennings, og að lágur tollur eða skattur eigi því að hvíla á sem flestum vörum.

Eg sé að háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) byggir allmikið á áskorunum nokkurra kaupmanna, sem smalað hefir verið saman síðustu dagana í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri. Mikið hefir þótt við liggja. Því fer fjarri, að kaupmönnum komi þetta frumv. við fremur en öðrum kjósendum í landinu, því auðvitað er þeim einum ekki ætlað að bera gjaldið. Áskoranir þessar verða því að skoðast sem komnar frá 70— 80 kjósendum landsins og alveg órökstuddar, því hvað vita t. d. kaupm. á Akureyri og Ísafirði um frumv., sem þeir aldrei hafa séð með eigin augum. Annars eru kaupmenn ekki vanir að skifta sér mikið af tolllögum, sem þingið semur, né löggjöfinni yfirleitt. Öll verzlunarlöggjöf landsins er í kalda koli, og þó hafa kaupmenn í Reykjavík að eins haft upptökin að einu mjög lítilsverðu frumv. á þessu þingi, frv. um lærlinga við verzlanir.