01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

76. mál, farmgjald

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Háttv. flutningsmaður (R. Kr.) hélt því fram, að prósenttal hans væri alveg reikningsrétt. En eg vil aftur fullyrða, að það sé alt meira og minna hringlandi vitlaust. Vér höfum hér í höndum annað prósenttal — annan reikning um það, hversu gjald þetta komi fram í hlutfalli við verð varningsins. Og þessi reikningur vor er saminn af reikningsfróðustu kaupmönnum hér í bænum, mönnum, sem eru betur að sér og miklu samvizkusamari og vandvirkari en flutningsmaður frumv. (B. Kr.) Og þegar vér lítum á ýmsar vörutegundir, sem standa bæði á reikningi hans og þeirra, þá vill nú skakka æði miklu.

Flutningsmaður lét mikið yfir því, hve vandvirknislega skýrsla sín væri samin, og þegar eg véfengdi fyrir honum tunnatölu þá, er hann sagði hefði flutst hingað tiltekið ár af kartöflum, þá sagðist hann skyldi ábyrgjast, að tölur sínar væri teknar nákvæmlega rétt úr verzlunarskýrslum Stjórnartíðindanna. En hvað reynist? — þegar flett er upp bókinni og honum sýnd hún, þá verður hann að játa, að tala hans sé rammskökk, en afsakar það með því, að það hafi »bara gleymst hjá sér eitt eða tvö núll« aftan af í ógáti!!!

Þetta er nú vandvirkni flutningsmanns! Svona er treystandi því, sem hann býðst til að ábyrgjast að rétt sé!!

Það er þó ofurlítill munur að einu eða tveim núllum í reikningi — meiri munur en að einu núlli á þingmannabekkjunum.

Það er ekki lítill munur á 20 tunnum og 200 tunnum eða 2000 tunnum.