23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eg tók það fram við 1. umr. þessa máls, hvernig á því stæði, að mál þetta er fram komið. Ástæðurnar til þessa eru fyrst og fremst þær, að landssjóður fái með þessu sem mest ráð yfir starfi og stefnu þessarar stofnunar. Á þetta atriði verður peningamálanefndin að leggja mjög mikla áherzlu, og áleit það í fullu samræmi við vilja landsmanna. Að það takist í með þessu frumv., eru miklar líkur til, að minsta kosti með 9 : 10. — Aðrar ástæður eru þær, að bæta verður úr peningaeklu þeirri, sem nú er, og komið hafa svo gagngerðar kröfur um til þingsins að kippa í lag.

Eg ætla ekki að vera fjölorður um hinar einstöku greinar frumv. Þær eru full-ljósar. Eins og getið var um við 1. umræðu þessa máls, þá hefir nefndin leyft sér, að koma fram með fáeinar breyt.till.

1. breyt.till. er sú, að aukið sé aftan við 5. gr. »þó losna«, o. s. frv., og eftir 5. gr. kemur ný grein. Að því er snertir viðaukann við 5. gr., þá gat eg þess við 1. umr., að heppilegt væri, að 5. gr. væri skýrð betur, svo eigi gæti valdið misskilningi.

Þá hefir nefndin lagt það til, að bætt verði við nýrri grein, sem verður 6. grein, svo hljóðandi: »Nú þykir stjórnarráði Íslands hagkvæmara, að taka útlent lán handa landssjóði, til að kaupa hlutabréf þau, er um getur í 1. gr., og er þá ráðherra Íslands veitt heimild til, að taka slíkt lán, alt að

2 — tveim — miljónum króna, er endurborgast með jöfnum afborgunum á 30 árum, en þó mega vextir af slíku láni eigi fara fram úr 4½% á ári, og skal lánið óuppsegjanlegt frá hálfu lánveitanda«. Þessi tillaga nefndarinnar stafar af því, að henni þótti heppilegra að veita stjórninni þessa heimild, ef henni þætti tiltækilegra að útvega lán með þessum kjörum eða svipuðum hagfeldum kjörum, heldur en með hinu mótinu. Vitaskuld er þetta að eins heimild til landsstjórnarinnar, sem hún notar ekki nema hún álíti arðvænlegt.

Enn fremur leggur nefndin til, að bætt verði við nýrri grein, er verður 7. gr., svo látandi: »Verði lán það tekið, sem nefnt er í 6. gr. veitist ráðherra Íslands enn fremur heimild til, að gefa út landssjóðsskuldabréf fyrir láninu, og skulu skuldabréfin útbúin með vaxtamiðum, sem greiddir séu tvisvar á ári, 2. dag janúar og 2. dag júlímánaðar. Skuldabréfin skulu vera á íslenzku og máli þess lands, sem lánið veitir og mynt þess«. Þessi grein er bein afleiðing af hinni fyrri, og þó að eins heimild, sem áður.

Enn er ein breyt.till. við 6. gr. núverandi, sem væntanlega verður 8. gr., að fyrir »fá þeir«, komi »fær hver þeirra«. Nefndinni þótti orðalagið ekki nógu skýrt, það gat valdið misskilningi; breyt.till. er gerð til þess, að girða fyrir allan misskilning.

Síðasta breyt.till. nefndarinnar er við 6. gr. núverandi, að aftan við gr. bætist: »Nú forfallast einhver þessara manna frá að mæta á aðalfundum og skipar þá stjórnarráðið mann í hans stað«. Það má segja sama um þessa breyt.till., sem hina næstu á undan; það hafði fallið burtu ákvæði um forföll.

Eg hefi ekki meira að segja um breyt.till. nefndarinnar. Eg vona, að háttv. þingd. taki frumv. og breyt.till. nefndarinnar eins vel og við 1. umr., og lofi því að ganga til 3. umr.

Áður en eg setst niður, skal eg víkja fám orðum að breyt.till. á þskj. 555, þar sem farið er fram á það, að breyta 6. gr. á þá leið, að sameinað alþingi kjósi 4 menn til 4 ára í senn, til að fara með atkvæði fyrir landssjóðs hönd. Skulu þeir kosnir hlutfallskosningum. Deyi einhver, kjósi hinir í skarðið. Þetta er mikil efnisbreyting, og eg má fullyrða, að nefndin telur till. óheppilega.

Eg skal ekki að svo stöddu fara fleiri orðum um breyt.till., en mun víkja að henni síðar, er eg hefi heyrt meðmæli flutningsmanna tillögunnar.