23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Skúli Thoroddsen:

Það eru að eins örfá orð, viðvíkjandi breyt.till. á þskj. 555 frá mér og þrem þm. öðrum. Í 6. gr. frumv. er gert ráð fyrir, að landritari og dómendur í yfirrétti fari með atkvæði fyrir landssjóðs hönd á aðalfundum Íslandsbanka. Þessu ákvæði viljum vér fá breytt. Eg sé ekki, að vér höfum neina tryggingu fyrir því, að landritari og dómarar í yfirrétti séu ætíð búnir þeirri þekkingu á bankamálum, sem geri þá öðrum færari til þessa starfs; en þekkingin er það þó, sem öllu eða mestu varðar. Það er og ætlast til þess, að þessir menn gegni starfinu æfilangt, og afsalar þjóðin sér þannig valdinu til þess að gæta hagsmuna landsins, hvað bankann snertir, í hendur fjögra manna, sem ekki þurfa að fara neitt að vilja þings né þjóðar, fremur en þeim sýnist í hvert skifti.

Mér hafði skilist svo, sem tilgangur frumv. þessa væri sá, að Íslendingar fengju yfirráðin yfir Íslandsbanka en ekki að tryggja þau 4 óafsetjanlegum mönnum. Mér finst það stríða á móti tilgangi frumv. Til þess að bæta úr þessu höfum vér því komið með br.till. Samkvæmt henni velur alþingi 4 menn til 4 ára í senn, og getur þá valið þá, sem bezt þykja til starfsins fallnir, og líklegastir til að hafa þekkingu á bankamálum. Vitanlega getur alþingi mistekist, en eigi verður því neitað, að mun meiri trygging er fólgin í þessu ákvæði, en í ákvæði nefndarinnar.

Það er líka kostur við breyt.till. vora, að gert er ráð fyrir, að fulltrúarnir verði kosnir hlutfallskosningum, sem æskilegast væri að og kæmist á, að því er snertir önnur trúnaðarstörf, í er þingið kýs menn til, t. d. val endurskoðunarmanna landsreikninganna, og við kosningu fulltrúa í bankaráð Íslandsbanka.

Eg skal ekki tala frekara fyrir br.till. Eg treysti því, að háttv. þingdeild fallist á hana.