23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Skúli Thoroddsen:

Mér þykir leitt, að nefndin hefir snúist svona við br.till. vorri, því fremur sem eg fæ ekki séð, að háttv. framsm. (M. Bl.) hafi rökstutt svar sitt fullnægjandi. Háttv. framsm. (M. Bl.) faldi það tilganginn hjá nefndinni að girða fyrir, að þessir menn yrðu fyrir áhrifum af pólitískum öldum. En fást ekki þessir menn nú máske við pólitík, og skyldi nokkurn tíma þeir menn komast í þessar stöður, sem ekkert eru við stjórnmál riðnir? Það er barnaskapur að bera á móti því.

Háttv. framsm. gat þess, að þessir menn væru hæfir menn, en þessi lög eru ekki miðuð við núlifandi menn, þau gilda fyrir alda og óborna, og allir þeir menn, sem frumv. vill fela atkvæðismeðferð fyrir landssjóðs hönd, geta verið steindauðir á morgun.

Eg sé ekki betur en að till. nefndarinnar séu bygðar á þeirri gömlu skoðun, að það séu embættismenn einir, sem vit hafi á öllum sköpuðum hlutum, þar sem nefndin leggur til að fela slíkum mönnum þetta vald, án þess að taka tillit til, hvort þeir hafa nokkurt vit á því, sem þeir eiga að gera.

Eg vona, að háttv. þingd. sýni það, að hún vill ekki aðhyllast þessa gömlu kreddu.