23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Bjarni Jónsson:

Á öndverðu þessu þingi var skipuð nefnd til að ráða fram úr peningavandræðum landsins. Var öllum það ljóst, að eitthvað þurfti að gera til þess að ráða bót á ástandinu. Þessi nefnd hefir reynt að gera það, sem hún hefir getað í þessa átt. Samvinna hefir verið góð með nefndarmönnum; enginn flokkarígur; allir samhentir um að finna ráð til umbóta. Eru þau ráð að finna í frumv. þessu, er nú mega menn sjá, og öðrum því líkum. Enn mun og mega geta þess, að nefndin hugsar sér að leggja til, að sett verði nefnd milli þinga til þess að ráða fram úr sambandi þessara banka beggja, ef þeir verða landssjóðs-stofnanir.

Og svo er þriðja till. nefndarinnar þessi, sem hér liggur fyrir til umræðu í dag. Eg tek það fram viðvíkjandi 1. gr. frv., að verðið 101 á hverju hundraði er sett þannig fyrir þá sök, að til er gömul heimild til að selja þessi bréf við því verði. Þetta stendur líka á sama, ef okkar bréf hækka að sama skapi. Nefndin hefir ákveðið, að bréf landsbankans skyldu vera 100 á 98 kr. Mismunurinn 3% og sumum hefur þótt hann of mikill. Eg skal ekki segja, að mismunur þessi sé á rökum bygður, en annað gat ekki orðið að samningi.

Eins og nú er, er mismunurinn 60 þús. kr. Hlutabréf stofnunarinnar hafa gefið 6½% og þótt arðurinn yrði nokkuð minni t. d. félli niður í 6%, þá er það þó alt af gott kaup, því að 60 þús. kr. í 50 ár með 4½% rentum verða rúmar 500 þús. kr. En ef keypt eru hlutabréf fyrir 3 miljónir kr. þá nema vextir 4½% = 90 þús. kr. og afborgun er 11 þús. kr. á ári, en af hlutabréfum fær landssjóður 6% = 120 þús. kr. á ári. Ársgróðinn verður því 120 þús. að frádregnum 101 þús., sama sem 19 þús. kr. Gróði þessi getur numið á 50 árum 1½—2 milj. kr. Allur reikningurinn er bygður á því, að hlutabréfin gefi 6% í vexti.

Hlutabréf bankans hafa svarað 6½% og það eru engar líkur til þess, að þau verði síður arðsöm hér eftir en hingað til, ef menn hafa nokkura trú á framtíð og framförum þessa lands. En þótt þau féllu niður í 5%, þá ber fyrirtækið sig samt.

Ýmsir menn kunna nú að halda því fram, að þetta sé áhætta fyrir landssjóðinn; bankanum geti hlekst á, og það svo mikið, að arðurinn yrði minni en 5% af hlutabréfunum eða bankinn gæti jafnvel farið á höfuðið. Eg get ekki neitað því, að þetta sé mögulegt, það hefir svo margt borið við í heiminum og sumt, sem er ólíklegra en þetta. Það er svo margt mögulegt, að það er því nær ómögulegt að taka það með í reikninginn og reikna með því, heldur verður að byggja reikninginn á líkum og því, sem er sennilegast. Ef að eins væri reiknað með því sem er hugsanlegt og fyrir getur komið, þá mundi það verða hættulegt fyrir öll fyrirtæki, þau gætu vafalaust öll misfarist, og það myndi spyrna á móti öllum framförum og framkvæmdum, ef alstaðar sæjust vandræði á veginum og ekkert annað.

Mér sýnist það nú ólíklegt að gera ráð fyrir því að banki, sem er eign þessa lands og stjórnað að tilhlutun þess, fái ekki 6% af hlutabréfum sínum í næstu 50 ár. Einkum verður þetta ólíklegt, þegar tekið er tillit til þess, að öll hlutabréfaupphæðin er ekki meiri en 5 milj. kr. Eftirspurn eftir peningum mun á næstu 50 árum vaxa meir en svo hér á landi, að þetta verði nægilegt, og eg er viss um að það þarf einmitt að stækka bankann, áður en langt um líður.

Eg hygg að það sé gott og nauðsynlegt fyrir öll fyrirtæki hér á landi, að það gæti losnað dálítið um fé, og bætt væri úr þeim peningavandræðum, sem nú eru. En það er auðséð, að bankinn fær ekki fé nema að hlutabréfin geti selst, og við verðum að sjá hvað verður í því efni. Ef landsbankinn hefir þegar selt bréf fyrir 2 miljónir, þá sýnist mér ekki ólíklegt, að bréf Íslandsbanka gætu líka selst. Eg get auðviðað viðurkent og trúað því, að það bæti ekki beinlínis fyrir, að landsbankinn er búinn að setja sín bréf á markaðinn og selja þau, en eg hygg samt að það spilli ekki fyrir þessari sölu, því þá hafa útlendingar fengið þekkingu um það, að þessi bréf eru til, og það er þá búið að opna markað fyrir þau.

Það sem þá er aðalatriðið í þessu máli er það, að ef till. nefndarinnar ná fram að ganga, þá getur landið tekið við stjórn stofnunarinnar. Bankinn hefir verið þyrnir í augum margra ekki fyrir það, að fé hans er útlent, því vér höfum ekki annað fé, heldur það að yfirráðin eru útlend og landið getur því ekki tekið í taumana, þótt illa sé stjórnað. Því er það mjög ósennilegt að bréf bankans muni falla í verði er yfirráð hans eru þann veg trygð.

Margir hafa látið í ljósi efa um það, hvort það væri rétt, að landið fengi yfirráðin, þótt það tæki þessa hluti. Til þess get eg svarað því, að eg hefi talað við Sighvat Bjarnason bankastjóra, og eg ímynda mér flestir treysti því að hann segi satt, og hann segir það, að 2 milj. á einum stað af 5 ráði atkv. á aðalfundi. Þetta liggur í því, að hinar 3 milj. eru svo tvístraðar, að ómögulegt er að þær geti ráðið. Upphaflega voru hlutirnir í höndum 3 stofnana: Prívatbankans í Höfn, Centralbankans í Kristjaníu og 2 víxlara Rubin & Bing (nú Laan- og Diskontobankinn). Þessir upphaflegu eigendur hafa dreift þeim og selt þá ýmsum smábönkum og einstökum mönnum út um heim.

Til þess að Ísland réði ekki á aðalfundum, þá þyrftu öll þessi hlutabréf að koma fram, því landssjóður ætti þá 2 miljónir kr. og ýmsir prívatmenn á Íslandi eiga hluti fyrir 400 þús. kr., og 2 miljónir og 400 þús. kr. sýnist vera nægilegt fé til þess að tryggja landinu yfirráðin.

Ef tekið er tillit til þeirrar reynslu, sem fengin er, þá kemur það í ljós samkvæmt fundarbókinni, að aldrei hefir komið fram ½ atkv. á fundunum. Þetta hefir bezt komið í ljós, er breytt var reglugerð bankans. Til þess að sú breyting væri lögmæt þurfti helming atkv. en það náðist ekki, og því þurfti að boða þrisvar til hans, en þá ræður meiri hluti þeirra atkv., sem á fundi eru, þegar þrisvar er til boðað. Af þessari reynslu er það auðsætt, að ekki stafar stór hætta af því, að vér værum atkv. bornir.

Sá möguleiki er þó hugsanlegur, að einhver ein stofnun, einhverra hluta vegna, keypti öll þau hlutabréf, sem dreifð eru víðsvegar út um heim. Þetta gæti þó naumast farið fram leynilega, því samkvæmt heimsreglunni mundu hlutabréfin hækka mikið, þegar eftirspurnin ykist svona mikið og yrði ákveðin.

Eg þykist nú hafa lagt fram full gögn að því, að með þessari hluttöku landsins í stofnuninni væri landinu trygð öll yfirráðin á aðalfundum. Hvaða áhrif hafa svo þessi kaup á bankaráðið? Það af því, sem ekki er kosið af alþingi eiga hluthafar að útnefna. Þegar landssjóður hefir keypt ? af hlutunum, þá kýs hann sem aðrir hluthafar og fær að minsta kosti 1 mann í ráðið. Eg get því ekki betur séð, en að allir hljóti að sjá og viðurkenna, hvað tortrygnir sem þeir kunna að vera, að alþingi hlýtur að hafa yfirráðin.

Það voru að eins hinar almennu mótbárur, sem eg vildi hrekja. Hvað mig snertir, þá er mér þetta ekkert kappsmál og getur ekki verið það, en eg vil að eins líta rétt á málið. Allar líkur benda í þá átt, að fyrirtækið hljóti að verða gott og hagkvæmt fyrir landið og landssjóðinn, og við höfum nægileg yfirráð yfir því, til þess að þurka út allan ótta, jafnvel hjá þeim er venjulegast sjá einhverja möguleika, sem verða muni ljón og birnir á vegi allra nýrra fyrirtækja. Í því efni mega menn vara sig á því, sem sagt er að danskurinn geri, að mála þann gamla á vegginn hjá sér. — — Enginn hlutur er sá að ekki geti komið einhver ófyrirsjáanleg óhöpp fyrir.

Að svo mæltu vildi eg víkja nokkurum orðum að því, hverjir eigi að fara með atkvæði okkar. Eg get ekki betur séð, en að tillögur nefndarinnar séu góðar. Yfirdómararnir eru reyndar embættismenn, en eg fyrir mitt leyti hefi enga ástæðu til þess að telja menn heimska fyrir þá sök eina að þeir eru embættismenn. Mér finst þvert á móti, að einmitt það að þeir eru lögfræðingar mæli með þeim, það er þó sá fróðleikur, er embættismenn læra, sem snertir þetta mál mest. Að það sé hægra að setja sig inn í bankamál fyrir lærða menn að öðru jöfnu, hljóta víst allir að verða samdóma um. Það er einnig annað atriði í þessu máli, sem er mikils virði, að þeir hafa þennan starfa í langan tíma og þótt þeir séu honum lítt kunnir fyrst í stað, þá gefst þeim einmitt tækifæri til þess að setja sig inn í málið og fá reynslu, og hana miklu meiri heldur en þeir menn, sem þingið kysi til 4 ára í senn. Það er engin trygging fyrir því, að þeir gætu sett sig nægilega inn í málin á jafnstuttum tíma. Yfirdómararnir eru einnig í þeirri stöðu, þar sem sízt er hætta á að þeir verði fyrir áhrifum. Þeir eru vel launaðir menn og því engin hætta að hægt væri að bjóða þeim kostaboð, sem væru aðgengileg fyrir þá til þess að breyta sannfæringu sinni. Þetta er almenn hætta, sem gjalda verður varhuga við. Það eru engir, sem hafa minni freistingar en þeir, og á enga fellur jafn þungur dómur, ef slíkt hendir.