19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jens Pálsson:

Út af breyt.till. minni um að fella burt heimildina til þess að veita Björgvin sýslumanni Vigfússyni lán til þess að koma sér upp embættisbústað, skal eg geta þess, að mér er sú tillaga ekkert kappsmál. En eg get ómögulega skilið, að slíkir sveitarhöfðingjar séu í þeim vandræðum, að knýjandi ástæður séu til að hlaupa undir bagga með þeim á þennan hátt. Eg hefi séð manninn og lítur hann út fyrir að vera »þéttur á velli« o. s. frv., og líklegur til þess að geta bjargað sér. Það er heldur ekki venja hér á landi, að sýslumannsembættum fylgi bústaður, og þá sjaldan það hefir fyrir komið að slíkum mönnum hefir verið veittur styrkur eða lán til þess að koma sér upp bústað, hafa þeir alt af átt heima í kaupstað, en ekki í sveit. Háttv. 1. kgk. þm. sagði, að mér færist ekki að leggja á móti þessari lánveitingu, þar sem eg sjálfur hefði fengið lán til þess að koma mér upp bústað. En eg vildi spyrja með hvaða kjörum? Það var alment prestakallalán, og kjörin sem prestar landsins eiga við að búa, ef þeir þurfa að fá sér lán til húsbyggingar, eru þau, að verða að byggja meira og minna vegleg hús, borga að fullu höfuðstól og vexti af launum sínum, og gefa svo landinu beinlínis húsin á eftir, og það í gildu standi eða með fullu álagi. Þetta eru engin kostakjör, enda þótt prestastéttin hafi hingað til orðið að gera sér þau að góðu.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 4. kgk. þm. tók fram um hækkun á styrknum til Einars myndasmiðs Jónssonar, verð eg að andmæla því, að tillaga mín fari fram á svo háan styrk, að nokkrar líkur séu til að hann myndi draga úr starfsþreki hans, eða lina hann í lífsbáráttunni. Styrkurinn er nauðalítill þegar þess er gætt, við hvílíka erfiðleika og fátækt maður þessi hefir átt að stríða um mörg ár. Hann þarf ekki að hafa safnað miklum skuldum til þess að hann eigi full örðugt uppdráttar þrátt fyrir þessar 2000 kr. Auk þess má og geta þess, að honum hafa brugðist vonir, að minsta kosti að því er Ingólfslíkneskið snertir. Listamensku hans er miklu meiri hætta búin af því, ef styrkurinn verður hafður svo lítill, að hann muni svo sem ekkert um hann, enda held eg hann sé ekki ofalinn, þótt hann fái jafnmikla upphæð sem lægstu adjunktar eða aðrir þeir embættismenn, sem verst eru launaðir. Sé upphæðin höfð mjög lág, má búast við að styrkurinn yrði honum til gremju, og hefði þá alveg gagnstæð áhrif á hann og starf hans, við það sem til er ætlast.