10.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Eg skal ekki tefja háttv. deild með langri ræðu, en að eins mæla fram með br.till. nefndarinnar á þgskj. 156. Breyt.till. við 4. gr. er eingöngu fólgin í að gera greinina skýrari.

2. og 3. breyt.till. við 6. gr. er komin fram samkv. því, sem háttv. 2. kgk. þm. stakk upp á við síðustu umr. þessa máls, og hún hefir verið gerð í samráði við hann. Það er svo ákveðið í frv., að ef tjón ekki nemur 500 kr., verði það ekki bætt. Þetta er fullhart ákvæði, og hefir því þótt rétt að setja upphæðina niður í 300 kr., eins og hér er gert. Hins vegar var nefndin á einu máli um það, að hentugt væri að draga alt af nokkuð frá, hvort heldur tjónið væri stórt eða lítið. Áður gátu menn ekki orðið ásáttir um, hvað mikið ætti að draga frá af skaðabótum. Hér er nú farið fram á þá miðlun, að greiða ekkert, ef tjónið nemur ekki 2%, nema því að eins að það sé 300 kr., og sé tjónið meira, þá á líka að draga 2% frá allri upphæðinni. Reynslan hefir sýnt, að það er hagkvæmt að draga alt af nokkuð frá, því að það er aðhald að mönnum, að hleypa ekki tjóninu fram að óþörfu.

Eg held ekki, að það þurfi að minnast frekara á þessa breyt.till. — Skal eg að síðustu að eins geta þess, að í 8. gr. frv. er prentvilla, sem gæti orðið skaðleg. Þar stendur »tryggingar fjárins« í 2 orðum í staðinn fyrir í einu orði. Þetta verður vonandi leiðrétt, þegar frv. verður prentað upp.