06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

113. mál, skipun prestakalla

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Eg vænti þess, að hin háttv. deild taki frumv. þessu mjúkum höndum. Það er komið hér fram samkvæmt almennum óskum safnaðanna í þeim prestaköllum, sem hér er um að ræða og stutt af hlutaðeigandi sóknarpresti og prófasti og biskupi landsins. Fyrirkomulag það, sem farið er fram á, er að því er snertir Kjalarnesþing, Mýra- og Snæfellsnessýslur alveg eins og það sem milliþinganefndin í kirkjumálum lagði til að leitt yrði í lög. En með Árnessýslu er dálítið öðru máli að gegna; þar voru breytingar, þær sem nefndin lagði til að gerðar yrðu á skipun prestakalla í neðanverðri sýslunni á móti vilja safnaðanna þar, og er það yfirsjón löggjafarvaldsins að samþ. þær breytingar. Gaulverjabæjarprestakall t. d. er svo stórt og mannmargt prestakall að erfitt er að þjóna því með Stokkseyri og Eyrarbakka. Prestakallið er mesta framtíðarhérað og fólki fjölgar þar og mun fjölga framvegis, einkum þegar hið mikla fyrirtæki Flóaáveitan kemst á, — sem eg vona að verði innan skams. Annars skal eg ekki fara út í einstök atriði málsins við þessa 1. umr. Eg finn ekki ástæðu til að svo stöddu að stinga upp á því að nefnd sé skipuð í málið. Mér finst mál þetta svo sjálfsagt og sanngjarnt, að eg vona, að það nái fram að ganga mótmælalaust hjá deildinni.