06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

113. mál, skipun prestakalla

Pétur Jónsson:

Það er dálítið athugavert við framkomu háttv. flutnm. 2. þm. Árn. (S. S.) í þessu máli. Hann lýsti því yfir fyrir nokkru í deildinni og lagði mikla áherzlu á orð sín, að hann skyldi altaf vera á móti allri fjölgun embætta í landinu, á móti öllum nýjum embættum. Nú vill hann bæta við 6 prestsembættum og með því auka mjög tilfinnanlega útgjaldabyrði landssjóðs. Til þess myndi fara nálægt 10 þús. kr. og það er þó als ekki svo lítið. Þeirri upphæð mætti verja til margs þarflegs og gagnlegs, er miðaði til að efla verklegar framfarir í landinu, sem háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) annars virðist vilja bera svo fyrir brjóstinu.

Að því er sjálft frumv. snertir, þá fer það fram á breytingar á skipulagi því á prestaköllum og prestsembættatilhögun, sem alveg nýlega hefir verið sett; reynslan hefir enn ekki sýnt, hvernig það muni gefast. En aðalástæðan móti þessu frumv. er þó sú, að það kippir grundvellinum undan þeirri meginreglu, sem milliþinganefndin í kirkjumálum og síðasta alþingi hefir bygt á, að hækka laun prestanna án þess að útgjöld landssjóðs til kirkjunnar ykjust og það var gert með því að. fækka prestaköllunum; kirkjan átti með öðrum orðum með þeim eignum og tekjustofnum, sem hún hefir haft til afnota og hinu vanalega tillagi úr landssjóði að geta borið sig sjálf. Það var skilyrði þess, að þingið yfirleitt fékst til að samþykkja launahækkunina. Menn vildu als ekki íþyngja landssjóði með henni. Menn sáu líka, að þegar prestarnir fengju hærri laun, þá gætu þeir betur gefið sig að sínu kennimannsstarfi, varið til þess lengri tíma og meiri kröftum, er þeir ekki þyrftu svo mjög annarlegum störfum að sinna, en þá mátti líka ætla þeim stærra verksvið, víðáttumeiri prestaköll.

Hér er að vísu einungis að ræða um að bæta við 6 prestaköllum, en með fullum rétti má segja, að þá beri jafnframt að fjölga prestaköllum annarsstaðar á landinu að miklum mun. Haldi maður hins vegar á launahækkuninni, þá vaxa útgjöld landssjóðs til kirkjunnar mjög mikið og grundvelli þeim, sem kirkjumálanefndin og þingið bygði launabótina á er þar með alveg raskað. Það eru tvö prestaköll, sem eftir frumv. á að setja inn aftur í Árnessýslu þvert ofan í tillögur milliþinganefndarinnar. Burtséð frá því að grundvellinum — eins og fyr er sagt — er alveg kipt undan máli þessu, er það ísjárvert mjög vegna þeirra afleiðinga, sem frumv. — ef það yrði samþykt — gæti haft í för með sér. Þá myndu menn víðsvegar um land rísa upp til handa og fóta og senda umkvartanir og áskoranir um að þessu og þessu prestakalli yrði skift í tvent, að ný prestaköll og prestsembætti yrðu stofnuð og hvar skyldi þingið láta staðar numið? Eg þekki víða til, þar sem mikið meiri þörf og ástæða væri til að skipta prestaköllum, en eg hygg vera á þeim stöðum, sem frumv. þetta fer fram á. Eg vona því að mál þetta verði felt þegar við 1. umr.