06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

113. mál, skipun prestakalla

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Þótt eg sé mótfallinn frumv., stend eg ekki upp til að svara háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) Eg vil að eins benda á ummæli hans um að frumv. sé borið fram til að bæta úr misrétti því, sem á sér stað í landinu með skipun prestakallanna. Orðið misrétti er ekkert annað en slagorð, sem háttv. flutningsmaður notar til að reyna að fleyta frumv. — Ef þetta frumv. næði fram að ganga og fara ætti að útfæra þá hugsun í samræmi við frumv., að bæta úr því svo nefnda »misrétti«, er eg hræddur um, að útfærslan mundi leiða deildina út á hála og hættulega braut. Það eru engar ýkjur, að mjög mörg prestaköll eru miklu erfiðari en þau, sem frumv. þetta fer fram á að verði skipt. Vegurinn í þessum prestaköllum enda á milli er ekki lengri og erfiðari en víða annars staðar milli höfuðkirkju og annexíu. Ef nokkrar breytingar ættu að eiga sér stað, þá væri það önnur prestaköll annars staðar á landinu, sem ætti að skipta og breyta. En það er annars óhyggilegt að vilja breyta lögunum nú, sem eru svo ný, að engin reynsla hefir enn fengist fyrir, hvernig þau muni gefast. En helzta ástæðan á móti frumv. þessu er þó sú, að það gerbreytir þeirri meginreglu, sem kirkjumálanefndin, síðasta þing og stjórn gerðust sammála um að fylgja í þessu máli: að hækka laun prestanna og gera kjör þeirra betri og jafnari en áður, en fá þó hins vegar umbætur þessar fram þannig, að landssjóði yrði ekki íþyngt fyrir það. Þetta var hægt að eins með því að fækka prestaköllunum. Neðri deild fækkaði prestaköllunum dálítið meir en milliþinganefndin hafði stungið upp á, en hækkaði líka laun prestanna að sama skapi. Alt af lá það á bak við, að breytingin skyldi ekki hafa nein aukin útgjöld í för með sér fyrir landssjóð, en verði frumv. samþ., er alveg vikið frá þessari reglu. Það á eftir frumv. að bæta við 6 prestaköllum, og ef þetta fær framgang, þá munu brátt koma önnur 6 og aftur 6. Hér er um veruleg fjárútlát að ræða fyrir landssjóð — þessi 6 prestaköll og öll önnur, sem hér eftir verða stofnuð — og þau hljóta að verða mörg, ef misrétti á ekki að eiga sér stað, — lenda á landssjóði. Það er ekkert ofmikið að gera ráð fyrir, að þessi 6 prestaköll kosti landssjóð á ári 9000 kr. Það eru þá vextirnir af 200000 kr. Með öðrum orðum: Það er ekki minna en fimta part úr heilli miljón, sem frumv. þetta kostar landssjóðinn. Hvar er nú sparnaðurinn allur, sem 2. þm. Árn. (S. S.) svo oft hefir verið að tala um? Þetta er ekkert smáræði. Málið er svo íhugunarvert, að það ætti að gera deildina varfærna.

Því hefir verið haldið fram, að fólkið sé óánægt með nýju prestalögin. Getur vel verið alveg rétt. Það bólar á mörgum stöðum á óánægju út af þeirri nýju tilhögun og það eflaust með eins miklum rétti og þar sem þetta frumv. vill gera breytingu á. En eg vil þá spyrja háttv. flutningsmann (S. S.): Á þá að stofna ný prestaköll víðsvegar um land, alstaðar þar sem menn eru óánægðir með lögin og vilja helzt hafa presta sína með gamla laginu? Eg er hræddur um, að landssjóður mundi ekki mega við öllum þeim útgjöldum. Eg hygg, að flutningsmönnum hafi ekki verið ljósar þessar afleiðingar frumvarpsins. En hvaða pólitík er nú þetta annars? Ber hún ekki talsverðan keim af hinni alkunnu hreppapólitík? Frumv. þetta fer líka fram á að fjölga prestum, þar sem einna minst er þörfin, og vona eg því, að deildin felli málið nú þegar við 1. umræðu.

Það er öldungis víst, að ef þetta frumv. kemst lifandi gegnum deildina í dag, þá koma á næstu dögum viðaukatillögur fram. Eg vil geta þess í þessu sambandi, að úr mínu kjördæmi hefir komið fram beiðni um að breyta skipun eins prestakalls, svo að prestaköllin verði tvö, svo sem áður var. En okkur þingmönnum S.-Múl. hefir ekki komið til hugar að bera fram sérstakt frumv. um það, því við höfum talið óheppilegt að raska grundvelli hinna nýju prestakallalaga. En ef þetta frv. nær fram að ganga, teljum vér oss skylt að beitast fyrir hinu.

Niðurstaðan mun því verða sú, að á endanum komist á 10—12 ný prestaköll eftir þetta þing, og mun það þó ekki nema helmingnum af því, sem síðar kemst á, því þetta mun valda sama ágreiningi, sömu hreppapólitík sem áður.

Eg hefi ekki ástæðu til að fara nánara út í þetta mál nú. Eg hefi sagt háttv. deild, hvað eg hefi á móti frv., og ræð henni til að fella það nú þegar, ella mun það leiða til þess ruglings og óþæginda, sem enginn sér út yfir.