06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

113. mál, skipun prestakalla

Björn Sigfússon:

Frumv. þetta er án efa afleiðing af því, að síðasta þing vann að kirkjumálunum í flaustri. — Lögin voru ekki fyr kunn en skarpar óánægjuraddir heyrðust úr ýmsum áttum gegn lögunum. Og því fer fjarri, að þær raddir hafi sefast. Óánægjan hefir haldist og magnast, þar sem eg veit bezt um.

Eg get ekki látið málið fara svo úr 1. umr., að eg minnist ekki á stefnu laganna, sem svo mjög hefir verið lofuð af sumum háttv. þm.

Þegar milliþinganefndin var skipuð í kirkjumálum, hugsuðu flestir, að hún mundi ekki eingöngu yfirvega launakjör prestanna, heldur og ástandið í landinu, kirkjulífið sjálft. Það var sannarlega ekki þýðingarminna og ekki síður íhugunarefni. Margar raddir höfðu heyrst um það, ekki sízt frá prestunum sjálfum, að það væri svo dauft, svo rotið, að bráðra umbóta væri vant í því efni. En því miður var kirkjumálanefndin, svo margir mætir menn sem í henni sátu, svo einhliða í till. sínum, að hún snerti ekki við nema annari hliðinni, leit að eins á ytra hag kirkjunnar og þá sérstaklega launakjör prestanna. Hitt virðist að nefndinni hafi ekki verið eins hugleikið að leita ráða til að glæða hið daufa og dofna trúarlíf. Það var að eins einn maður í nefndinni, núverandi 5. kgk. þm. (L. H. B.), sem vakti máls á till. í þessa átt, og fórst honum þar prestlegar miklu en prestunum í nefndinni, þótt prestur væri hann ekki. Hann leit að mínu áliti miklu réttar á málið; honum þótti ekki hlýða, meðan hann sat í nefndinni, að sletta nýrri bót á gamalt fat, og taldi ekki meinsemdir kirkjulífsins verða læknaðar með tómum brauðasamsteypum; um það er eg honum fyllilega sammála. Til þess þyrfti miklu fremur fullkomið trúfrelsi, ekki að eins í orði, heldur líka á borði, og leysing kirkjunnar frá ríkinu. Því miður hélt hann þó ekki þessari hugsun fram, þegar á þingið kom, heldur fylgdi þar meiri hluta nefndarinnar að málum.

Þessi stefna milliþinganefndarinnar, að bæta að eins kjör prestanna með sameiningu prestakalla, var svo tekin af þinginu, sem kunnugt er. En söfnuðunum var enginn gaumur gefinn. Það gat ekki heitið, að í öllum umr. á þingi um þessi mál hafi það komið verulega fram, að þm. myndu eftir söfnuðunum; það voru að eins fáeinar undantekningar frá því, og minnist eg þá sérstaklega háttv. þm. Ísf. (S. St.), annars hugsaði allur fjöldinn um það eitt að bæta launakjör prestanna. En um trúarlífið létu þeir sér í léttu rúmi liggja, því að ekki skil eg, að þeim hafi dottið sú fásinna í hug, að svona lagaðar endurbætur á kjörum prestanna mundu verða til þess að bæta trúarlífið.

Eg veit það, að áður en milliþinganefndin tók til starfa, átti að bera það undir söfnuðina, hvort þeir aðhyltust sameiningar; en mjög var það í molum og sumstaðar var það als ekki gert. Þó að málinu væri hreyft á héraðsfundum, voru óvíða samþ. nema lítilsháttar breytingar á skipun prestakalla, en milliþinganefndin og þingið gekk miklu lengra. Á mörgum stöðum á landinu voru menn frá upphafi andvígir mikilli samsteypu prestakalla. Það hefir líka sýnt sig síðan lögin komu í gildi, hvort þau eru að vilja þjóðarinnar.

Eins og eg sagði í upphafi ræðu minnar, er þetta frumv. komið fram af óánægju við hin nýju lög; við það bætast svo áreiðanlega óskir fleiri safnaða um breytingar á skipun prestakalla, því að miklu víðar en í þessum héruðum er ástandið svo, að ekki er við unandi.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) benti á ýmislegt í þessa átt, einkum að því leyti, hversu lítið tillit væri til þess tekið, að alþýðan gæti notið prestanna. Eg er honum fyllilega samþykkur. Mín persónulega skoðun er sú, að samsteypa prestakalla sé ekki eingöngu ósanngjörn gagnvart þeim, sem nota eiga prestana, heldur sé hún líka skaðleg vegna trúarlífsins. Það er ósanngjarnt að heimta sama gjald af mönnum og minka þó prestsþjónustuna stórum og auka erfiðleikana að því að í nota prestinn, eða jafnvel gera það lítt kleift, ef um miklar vegalengdir er að ræða. Ef um stórt svæði er að ræða, þá er samlífið milli prests og safnaða afarlítið, nema helzt kringum prestinn. Þeir, sem lengst eru frá honum í útkirkjusóknunum, sjá hann als ekki nema sem sjaldsénan ferðamann, þegar hann messar, þriðja, fjórða eða fimta hvern sunnudag. Allir ættu að geta séð, að það getur ekki orðið til þess að vekja hlýja og innilega samvinnu milli prests og safnaðar.

Menn munu nú ef til vill segja, að prestarnir hafi þó enn á hendi húsvitjanir. Það er satt að vísu. En þeir verða að halda hraðan á, þegar þeir ferðast um svo stór svæði, og húsvitjanirnar verða fremur að nafni en gagni, sem eðlilegt er, því prestarnir geta ekki varið nema litlum tíma til þeirra.

Mín skoðun er sú, að þessi stefna, að breyta kirkjulöggjöfinni eingöngu í því skyni að bæta laun presta, sé mjög óheppileg. Sú stefna verkar ekki í þá átt að vekja trúarlíf í landinu. — Eftir því sem söfnuðirnir hafa minna af prestunum að segja, að sama skapi vex deyfðin í trúarefnum. Það er enginn vafi á því, það munu fleiri kannast við en eg, að margir prestar hafa glætt trúarlíf safnaða sinna.

Eg vil ekki tefja tímann, þótt margt mætti segja um þessa hlið málsins. — Þó skal eg geta þess, að eg sakna þess mjög, að milliþinganefndin, svo vel skipuð sem hún var, skyldi ekki taka betur til íhugunar skilnað ríkis og kirkju, því að því rekur að það verði að gera. En þá var gott tækifæri til þess. Það er raunar ekki til neins að sakast um orðinn hlut. Næsta stigið verður það að taka þetta atriði til rækilegrar íhugunar.

Eins og eg sagði í upphafi ræðu minnar, þá er óánægjan með þessi lög á miklum rökum bygð og mjög eðlileg. Frumv., sem hér liggur fyrir og þær viðbætur, sem við það kunna að koma, er afleiðingin af þessari óheppilegu löggjöf. Nú tel eg þinginu skylt að vega kröfur safnaðanna og unna þeim réttar síns. Það er fylsta réttlætiskrafa, að söfnuðirnir hafi þeirra embættismanna full not, er þeir verða að greiða svo mikið.

Eg vil víkja að einu atriði enn. Á þessu sama þingi voru gefin út lög um mikla rýmkun kosningarréttar til prestskosninga. Eg er ekki að finna að því, síður en svo; eg tel það alveg rétt. En hvernig er nú þetta framkvæmt? Það er í mörgum tilfellum bara sýnd veiðin en ekki gefin. Menn eru gabbaðir. Mörgum söfnuði er algerlega meinað að neyta þessa réttar. Það stendur víða svo á, að söfnuðir eru prestslausir, og ekki einu sinni borið undir þá, hvaða prestsþjónustu þeir vilji hafa. Sumstaðar hefir jafnvel verið neytt upp á þá einhverri prestsþjónustu þvert á móti yfirlýstum vilja þeirra. Svona er nú farið með þennan dýrmæta kosningarrétt, sem göfuglyndir menn þóttust vera að veita veslings alþýðunni!

Ef setja má prest á móti vilja safnaðar í eitt eða tvö ár, má það alveg eins í 20 ár, og svifta þá kosningarréttinum allan þann tíma. Þetta verð eg að telja ranglátt, og það getur ekki leitt annað en ilt af sér.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og þm. S.-Þing. (P. J.) tóku fram að meiningin hefði verið með þessum lögum að gæta þess, að útgjöld landssjóðs ykjust ekki, heldur gætu vegið salt. — Þeir fullyrtu, að ef nokkur breyting væri gerð, yrði þar með grundvellinum kipt undan þessu skipulagi. Já — grundvöllur, sem þannig er lagður, hann hlýtur að hrynja fyr eða síðar, og á að hrynja.

Þótt um dálítið aukin útgjöld væri ræða til þeirra presta, seni þjóðin vill hafa, finst mér engan veginn rétt að gera mikla grýlu af því. Menn verða að gæta þess vandlega, að trúaráhuga og trúarþörf er ómögulegt að meta til peninga.