06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

113. mál, skipun prestakalla

Sigurður Gunnarsson:

Það hefir löngum þótt góður siður, að bera meiri háttar mál undir þjóðina. Eins og kunnugt er, hefir það og verið gert, að því er til þessa máls kemur. Kirkjumálanefnd hafði það með höndum milli þinga. Fyrir þeirri nefnd lágu heilir bunkar af óskum og yfirlýsingum safnaða og héraðsfunda víðs vegar um land. Og nefnd þessi, sem virtist fara svo langt sem fært var í fækkun prestakalla, réð þó als ekki til þeirra samsteypa, er þingið 1907 bætti við. Það gerði þingið þvert ofan í tillögur kirkjumálanefndar, safnaða og héraðsfunda.

Eg veit ekki vel, hvar það átti heima, er háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) var að tala um það, að það mundi spilla trúarlífinu, að prestum væri dembt á landssjóð, enda mundi það ekki verða nema að mjög litlu leyti, þótt óhæfilegustu samsteypunum yrði kipt sundur aftur.

Annars virtist mér sá háttv. þingm., er eg nefndi, vera mest að ræða mál, er hér liggur als ekki fyrir, þ. e. skilnað ríkis og kirkju. Vér höfum nú einu sinni þjóðkirkju, er löggjafarvaldinu ber samkv. stjórnarskránni að styðja en fella ekki. Vilji hann og aðrir þingmenn hreyfa fríkirkjumálinu í nálægri framtíð, sem eg hefi ekkert á móti, þá er það laust við þetta mál. Söfnuðirnir, sem nú eru harðast leiknir, gætu verið orðnir langeygðir eftir réttmætum bótum, þegar slíkt stórmál sem fríkirkjumálið væri komið í kring.

Annars skal eg ekki orðlengja meira um þetta, en leyfi mér að stinga upp á 5 manna nefnd í málið.