06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

113. mál, skipun prestakalla

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Eg ætla mér ekki að svara öllum mótbárum, sem komið hafa fram á móti þessu frumv. Eg ætla að eins að minnast á þá meginreglu, er háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir sagt, að vakað hafi fyrir síðasta alþingi, er það gekk inn á þessa braut, að fækka prestunum og bæta kjör þeirra. Þessi meginregla var í því fólgin, að sameina prestaköllin, fækka prestunum að miklum mun og auka svo laun þeirra, án þess þó að það hefði í för með sér aukin útgjöld fyrir landssjóð.

Eg skal nú sýna honum fram á það, að tilgangi þessarar meginreglu laganna um skipun prestakalla frá síðasta þingi, verður ekki náð um langt skeið. Um hitt skal eg ekki fjölyrða frekara en gert hefir verið, hve breytingin veldur miklu misrétti víða í söfnuðum og einstökum prestaköllum.

Þess er þá fyrst að gæta, að margir prestar ganga ekki undir nýju lögin, en láta skipa sig til að þjóna brauðum eftir gömlu lögunum. Eg þekki t. d. tvo presta í mínu kjördæmi, sem hvorttveggja eru tiltölulega ungir menn, prestana í Hraungerði og á Stokkseyri, sem báðir þjóna eftir gömlu lögunum og eru settir til að þjóna Gaulverjabæjar- og Villingaholtssóknum. Þetta fyrirkomulag kostar því jafnmikið eða meira en þó Gaulverjabær væri gerður að sérstöku prestakalli, eins og farið er fram á í frumv. Hér er því ekki um nein ný útgjöld að ræða fyrir landssjóð svo teljandi sé fram yfir það, sem nú á sér stað. Annað er það, sem er afleiðingin af því að fækka prestunum mikið, það er að prestaköllin verða svo víðáttumikil, og þegar prestarnir taka að eldast, verða þeir neyddir til þess að fá sér aðstoðarprest, ef þeir á annað borð láta sig nokkru skifta það að fullnægja kröfum safnaðarins. Niðurstaðan mundi þá verða sú hjá mörgum, að þeir neyddust til að sækja um launaviðbót. Auðvitað mætti neita um það, en eg verð að álíta, að sanngirni mundi oft þykja mæla með, að slíkri kröfu væri sint.

Ef bíða á eftir því, að jafnvægi komist á í þessu máli þannig, að breytingin á prestakallaskipuninni, sem gerð var á síðasta þingi, hafi engin aukin útgjöld í för með sér, þá megum við lengi bíða. Sennilegt að annað skipulag verði komið á kirkju og prestaköll hér á landi um það leyti.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) vildi ekki láta hagga við undirbyggingu þeirri, sem lögð var á síðasta þingi í prestakallamálinu.

En hvernig er sú undirbygging ? Henni var hrúgað upp lítið hugsaðri og í flaustri (Pétur Jónsson: Marklaus orð!), og þess vegna full ástæða og alveg réttmætt að hagga við henni aftur í ýmsum greinum og gera hana traustari.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) bar mér það á brýn, að eg hefði lýst því yfir hér í deildinni, að eg mundi greiða atkvæði á móti öllum embættafjölgunum. Hafi eg á annað borð sagt eitthvað í þá átt, þá hefi eg eflaust látið »óþörfum« fylgja með, og við það stend eg. Eg skal fúslega samlaga mig háttv. þm. til þess að flytja frumv. um afnám allra óþarfra embætta og bitlinga. En sparnaðurinn má ekki koma niður á einstökum söfnuðum í landinu, að því er prestsþjónustu snertir. Það er naumast holt fyrir þjóðina eða sanngjarnt. Hitt er annað mál — og því vil eg lofa háttv. þm. S.-Múl. (J. Ó.) — að greiða atkvæði móti öllum persónulegum bitlingum, sem teknir hafa verið upp í fjárlagafrumv. í þeim tilgangi að rétta bita eða sopa að mönnum, sem ekki hafa til þess unnið.

Eg skal sömuleiðis viðurkenna það, að aðskilnaður ríkis og kirkju er að mínu áliti það æskilegasta, sem auðið er að gera í þessu máli. En það mál liggur ekki fyrir nú og því fyllilega réttmæt krafa, sem frumv. fer fram á og hér er um að ræða.