27.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

115. mál, almenn viðskiptalög

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Út af samanburði háttv. þm. Vestm. (J. M.) á víxillögum og þessum lögum, þá verð eg að álíta að háttv. þm., sem eins og allir vita hefir erfiðu og umfangsmiklu embætti að sinna — hafi aldrei gefist tími til að lesa þetta frv. Víxillögin eru sannarlega fult svo mikið vandaverk, sem þessi lög, því þau snertu, er þau voru lögleidd, svæði, er þá var alveg óþekt fyrir oss. Þau eru eins og þetta frumv., að eins þýðing á dönskum lagabálki, en sá er einn munurinn, að þau eru illa þýdd, en þessi vel. Ef háttv. þm. man, hvernig íslenzkar þýðingar gáfust frá stjórninni í Höfn, þá mun hann reka minni til þess, að kosta varð töluverðu fé til að snúa svo nefndri »íslenzku« stjórnarinnar á íslenzku! — því málið var oft þannig, að enginn gat skilið það. — Lög þessi ræða um viðskifti, sem eru þekt hér, og ef háttv. þm. hefði haft tíma til að lesa frumv. þá hefði hann fljótlega séð, að hér var ekki verið að ræða um neinar breytingar eða takmarkanir á viðskiftum manna, heldur að hér er að eins lögfest venja sú, sem tíðast hefir verið fylgt, eða þar sem fleiri en ein venja hefir tíðkast, þá hverri skuli fylgja í þeim atriðum, sem enginn sérstakur samningur hefir verið um gerður.