05.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

116. mál, útsölustaðir kaupmanna

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Frumv. þetta er stutt og lítið, og legg eg til, að því sé vísað til sömu nefndar og málinu næst á undan,

Það sem frumv. þetta fer fram á er að nema úr gildi ákvæði opins bréfs frá 7. apríl 1841, þar sem kaupmönnum er bannað að hafa útsölu í fleiri en einum stað í sama kauptúni. Þó er að eins ætlast til, að ákvæðin séu feld úr gildi í Reykjavík og þeim kaupstöðum, sem hafa 2000 íbúa eða yfir það.

Reynslan hefir sýnt, að bann þetta hefir reynst hégómi; það var lagt á áður en verzlunin varð að öllu frjáls hér á landi, til þess að varna því, að í smákauptúnum, þar sem verzlunarlóð var af skornum skamti, gæti ein verzlun lagt undir sig alla lóðina og heft svo samkepni í verzlun. En nú eru lög komin, er greiða aðgang að verzlunarlóðum, enda enginn hörgull á þeim í Reykjavík og stærri kaupstöðum. Nú er og farið í kringum lög þessi á marga vegu, bæði með því að verzla í deildum og verzla í fleiri stöðum í sama kaupstað, en nota »leppa«. Það er því engin ástæða til þess að halda við slíkum ákvæðum, sem eru óeðlileg, óþörf og margoft brotin.