05.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

117. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Nefndin hefir öll orðið sammála um niðurlagsatriði þessa máls, og ræður hinni háttv. deild, til að samþykkja þessa þingsályktunartill.

Vér vildum gefa dálitlar bendingar um það, hvernig skilnaðinum væri hentast og réttlátast að haga.

Nefndin byggir álit sitt mest á því, að fram hafa komið hér á landi á þingmálafundum og víðar, margar raddir um það, að menn óskuðu aðskilnaðar ríkis og kirkju, en í gagnstæða átt hafa engar raddir látið til sín heyra.

Nefndin leyfir sér að halda því fram, að þetta þjóðkirkju-fyrirkomulag sé ranglátt — ranglátt jafnt gegn kirkjunni sem ríkinu.

Sé nokkur hlutur viðkvæmur í frelsisbaráttu einstaklinganna er það sá, að hafa ekki að eins leyfi til að trúa því, sem samvizkan segir hverjum, að réttast sé, heldur og til þess, að ekkert annarlegt vald hafi neitt yfir trú manna og guðs-dýrkun að segja.

Það er ekki rétt, að hver sá, sem nú er utanþjóðkirkjumaður þurfi að vera þjóðkirkjunni óvinveittur, þótt hann meti annað betra. Vitanlega er þeim, er fyrir utan standa annað kærara, sem líka er ofur-eðlilegt. En öll trúarbrögð hafa eitthvað sameiginlegt, og það er einmitt hið sameiginlega, sem er mikilsverðast, og því unna allir góðir menn í öllum trúarbrögðum. — Eg held að allir hljóti að sjá, að jafnvel sjálfri lútersku kirkjunni er misboðið með þessu þjóðkirkjufyrirkomulagi. Öll hennar mál heyra nú undir ríkið, og ef til vill stundum undir dóm og atkvæði þeirra manna, sem als ekki heyra henni til í hjarta sínu og eru henni því ekki mjög hlyntir.

Allir játa, að þeir menn, er mestan hafa sýnt trúmálaáhuga með þjóð vorri, séu sumir prestar vestan hafs. Og þeir eru allir sammála um það, að deyfðin í trúarlífi manna hér heima stafi að meiru eða minna leyti af þjóðkirkju-fyrirkomulaginu. Og hér hafa líka margar raddir heyrst í líka átt.

Eg man ekki betur, en að einmitt núverandi biskup landsins hafi látið þá skoðun í ljósi, að hann væri hlyntur skilnaði ríkis og kirkju. Það sem í svipinn helzt mætti færa fram á móti þessu, væri það, að þeirri núverandi kirkju yrði örðugra fyrir. En eg held, að reyndin mundi verða sú, að hún mundi eiga fyrir höndum langt um glaðari daga.

Þar sem ríki og kirkja er aðskilin, þar verða meðlimir hvers kirkjufélags að leggja nokkuð á sig til viðhalds og eflingar kirkju sinni og trú; en það sem menn leggja fúsir og viljugir eitthvað í sölurnar fyrir, það verður mönnum jafnan kærast.

Ágreiningurinn við aðra glæðir áhugann og persónulega viljug fjárframlög gera mönnum málið kært.

Þegar menn halda uppi félagsskap, sem að dómi samvizku sinnar, er réttur og góður og hollur, þá gengur alt vel. Viljinn dregur þá meira en hálft hlass. — En í þjóðkirkjunni gerir enginn neitt viljugur, alt er lögboðið. Þar dofnar áhuginn bæði hjá söfnuðum og prestum.

Eg vildi mega benda á skýrslu blaðsins »Verði ljós« 1897 í nóvemberblaðinu. Af henni má sjá, að í 18 prestaköllum urðu það ár 40 messuföll í hverju, en messudagar eru als á árinu ekki fleiri en 60, og í einni kirkju var ekki messað nema 6 sinnum á árinu.

Og þetta hefir átt sér stað ekki í afskektum útkjálka-prestaköllum, heldur í stórum og góðum prestaköllum, sumum helztu köllum landsins.

Sama er að segja um altarisgöngurnar. Í 12 prestaköllum voru þetta sama ár als engir til altaris, og í 5 þetta frá 2—5 manns. Og tiltölulega ekki fleiri hér í höfuðstaðnum, þar sem þó eru tveir dómkirkjuprestar, ekki eins margir eins og fermingarbörnin.

Nefndin leyfir sér því að skora á stjórnina, að undirbúa mál þetta sem rækilegast, og leggja frumv. um aðskilnað fyrir alþingi, ekki endilega fyrir næsta þing, því verið getur, að málið heimti meiri undirbúningstíma, og svo þarf líka á næsta þingi, að gera þá stjórnarskrárbreyting, er heimili þetta.

Einn háttv. nefndarmaður (H. G.) hefir undirskrifað nefndarálitið með fyrirvara, ekki af því, að hann sé ekki samþykkur í öllum aðal-atriðum, heldur vegna einhvers smávægis atriðis í röksemdaleiðslunni.