05.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

117. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Hálfdan Guðjónsson:

Eg geri ráð fyrir, að all-margir hafi álitið, að hér væri í nokkuð mikið ráðist, er þessi tillaga kom fram hér í deildinni, borin fram af einum þingmanni án þess, að um nokkurn sérstakan undirbúning væri að ræða að þessu sinni. Af því að hér var um svo mikilvægt mál að ræða, þá þótti deildinni þó ástæða til að fela það sérstakri nefnd til íhugunar og umsagnar.

Eg hefi einn nefndarmanna skrifað undir þetta nefndarálit með fyrirvara, og þykir mér því hlýða, að eg geri grein fyrir afstöðu minni gagnvart þessu stór-merka máli.

Orðalagi till. eins og hún kom fyrst fram höfum vér allir orðið sammála um að breyta. Þótti hún of freklega orðuð.

Breytingartill. nefndarinnar við tillöguna eru mjög verulegar, þótt ekki séu þær fyrirferðarmiklar, þar sem bætt er inn orðunum »undirbúa og«, en felt burtu orðið »næsta«. Með þessu er bent á nauðsynlegan og sjálfsagðan undirbúning þessa máls, og að þá fyrst er honum er lokið beri að leggja fyrir þingið frumv. um málið, ef þjóðin hefir sýnt, að hún er málinu fylgjandi.

Eg skal taka það fram, sem almenna athugasemd, að mér finst tæplega rétt, að einungis önnur þingdeildin taki ákvörðun um annað eins stórmál og þetta. Slíka þingsályktunartillögu ætti að athuga og ræða í báðum deildum þingsins. Í slíkum stórmálum má að engu hrapa.

Því næst vil eg geta þess, að eg er samþykkur því, sem eg tel meginatriði málsins. Sú hugsjón vakir fyrir mér, sem fegurst og fullkomnust, að hér mætti vera frjáls kirkja í frjálsu landi. — En mér er ekki grunlaust um, að orðið fríkirkja sé mörgum manninum helzt um of óljós hugmynd og þokukend.

Það er og eðlilegt að nokkru, því að þau lönd og þær þjóðir, sem oss eru næst og kunnust t. d. Norðurlönd og England hafa miklu meira af þjóðkirkjum að segja eða ríkiskirkjum en fríkirkjum. Það mun nálega eingöngu vera frá Ameríku eða löndum vorum þar, sem oss hafa komið ofurlítil kynni af fríkirkju-hugmyndinni.

Þótt þessi þingsályktun geri ekki annað að verkum, en að skýra fyrir mönnum þessa fríkirkjuhugmynd dálítið nánar, ætti hún þó skilið að verða samþykt. Því að fyrst og fremst þyrfti almenningi að vera sem allra ljósast, hvað það er, sem verið er að óska eftir.

Þá vil eg minnast á nokkur einstök atriði í nefndarálitinu.

Hvað það snertir að vitna til vilja þjóðarinnar í þessu efni, get eg ekki gert eins mikið úr því og vikið er að í nefndarálitinu. Málið hefir ekki verið mönnum svo ljóst sem skyldi, eins og eg tók fram áður og líka víða á þingmálafundum samþ. með örfáum atkvæðum.

Það sem helzt mætti byggja á er það, að ekki hafa komið fram mótatkvæði. Þjóðkirkjan hefir gefist vel hjá mörgum þjóðum, en þegar deyfðin hefir komið í ljós og hún hefir komið mjög í ljós hjá oss, þá er eðlilegt að menn fari að líta í kringum sig, líta eftir vænlegum ráðum til umbóta, og þetta er þá ein leiðin, sem menn fá augastað á. Í þessu sambandi skal eg láta þess getið, að eg er því samþykkur að öllu leyti, að þeir, sem fylgja þjóðkirkjunni sem dauðir limir, eru henni til tjóns og geti aðskilnaður ríkis og kirkju hjálpað kirkjunni til að losast við þá, tel eg það mjög heillavænlegt. En hins vegar tel eg líklegt, að við þá megi losna, þótt ríki og kirkja séu ekki skilin að til fulls.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að fjármálahlið þessa máls. Læt eg þess fyrst getið, að þar tel eg þó að fremur sé að ræða um auka-atriði, en als ekki kjarna málsins frá mínu sjónarmiði. En samþykkur er eg þó eigi röksemdafærslu meiri hlutans um eignarráðin yfir kirkjueignunum. Lít eg svo á, að þær eignir hafi í öndverðu verið gefnar kristilegri kirkju í þessu landi. Og kaþólska kirkjan hefir verið og er kristileg kirkja. Beint framhald hennar — dóttir hennar — er lúterska kirkjan, sem kom með siðabótinni. — Hana eina tel eg því réttan erfingja að kirkjueignunum, en hvorki ríkið né aðrar óskyldar eða fjarskyldar kirkjudeildir, sem kynnu að myndast hér t. d. Mormónakirkju eða Múhamedstrúarkirkju.

Að því er stólsjarðirnar snertir vil eg enn fremur geta þess, að þær voru ekki gefnar eingöngu til að launa biskupana, heldur líka til að standa straum af uppfræðslu kennimanna kirkjunnar, eins og henni verður fyrir komið á öllum tímum. Það er því ekkert á móti því, að nokkru af þessu fé verði varið til styrktar kenslustofnunum handa kennilýð kirkjufélaganna, þótt aðskilnaður ríkis og kirkju komist í framkvæmd. En eg skal ekki fara lengra út í það að þessu sinni.

Að lokum vil eg geta þess í sambandi við kirkjueigna-umráðin, að til eru þeir menn, sem tala um aðskilnað ríkis og kirkju, og um fríkirkju og fylgja því máli af ekki veglegri hvötum en það, að aðalatriðið í þeirra huga er að hremma eignir kirkjunnar til umráða og afnota, svo að trúarlífið og kirkjufélagsskipun landsins hafi engan stuðning af þeim. Eg vona, að þessir menn séu sem fæstir og tel því óþarft að eiga orðastað við þá.

Enn vil eg drepa á það, að eg teldi heppilegt að veita meira frelsi og meiri rétt en nú er til sjálfstæðrar starfsemi í kirkjumálum, án þess slitið sé sambandi ríkis og kirkju. Það teldi eg hinn bezta undirbúning og góðan skóla fyrir fríkirkjufyrirkomulagið síðar.

Eg skal annars geta þess, að eg hefði talið mér það skylt og ljúft, að eg hefði samið sérstakt nefndarálit, en tíminn var svo stuttur, að mér var það með öllu ómögulegt. Nefndarálit meiri hlutans kom mér svo seint fyrir augu, að eg hafði ekki nema nokkrum klukkutímum úr að spila. Í nefndarálitinu segir, að leita skuli álits þjóðarinnar um þetta mál, áður en því sé ráðið til lykta af stjórn og þingi. Eg hefði helzt viljað fara lengra. Eg tel það æskilegast, að málinu sé skotið undir atkvæði þjóðarinnar, að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um þetta mál, áður stjórnin leggi það fyrir þingið í frumv. formi, líkt og að sínu leyti átti sér stað með aðflutningsbannslögin.