05.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

117. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Ráðherrann (B. J.):

Eg skal lýsa því yfir, að eg er mjög svo samdóma og samhuga þeim háttv. þm., sem um þetta mál hafa talað hér í dag. Mál þetta er eitt af stórmálum þjóðarinnar og eg lít svo á, að mál þetta fái beztan undirbúning með því, að skipuð sé milliþinganefnd til að íhuga það rækilega, og það er svo sem auðvitað mál, að til þess starfa getur gengið lengri en 2 ára tími. Hins vegar hefi eg ávalt verið þeirrar skoðunar, þegar eg hefi hugsað um þetta mál, að æskilegast væri, að með almennri atkvæðagreiðslu væri leitað atkvæða um málið, Því að þótt komið hafi fram meira og minna ákveðnar skoðanir um þetta mál á meira eða minna vel sóttum þingmálafundum, þá tel eg það ekki nægilegt í þessu efni. Þjóðin er ekki búin að mynda sér fasta og nákvæma skoðun, að minsta kosti ekki enn, hvernig málið eigi að verða framkvæmt í einstökum atriðum, þó að hugsjónin sjálf kunni að vera orðin nokkuð almenn hér á landi.