24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

119. mál, mentaskólamálefni

Flutningsmaður (Bjarni Jónsson):

Eitt af því, sem kenslumálanefndin hefir rætt, er fyrirkomulagið á hinum almenna mentaskóla. Meiri hluti hennar hefir orðið á það sáttur að bera fram þá tillögu, sem hér liggur fyrir í dag. Mun eg nú með nokkurum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna till. er komin fram og hvað vakti fyrir nefndinni með henni.

Nefndin kannast við, að það sé hlutverk slíkra skóla að þroska nemendurna til líkama og sálar. Hitt telur hún aukaatriði, hvort þekkingin er gagnleg til lífsuppeldis eður ekki. En ef um er að velja 2 greinir, sem báðar eru jafnvel lagaðar til að þroska anda nemendanna, en önnur kemur að betri notum í lífinu, þá situr sú í fyrirrúmi. Því að það er miklu meira um vert að andinn þroskist en stundarhagnaður; það er bæði drýgra og ber nemendunum meiri ávexti en hitt. Verður því auðsýnilega að velja námsgreinir í slíkum undirbúningsskólum, sem eiga að gera menn hæfa til að halda áfram á háskólum, eftir þessu, velja þær svo, að þær séu vel fallnar til þess að þroska sálargáfur nemendanna. Margar greinir eru til þess hentar að þroska gáfnafarið, skynsemina, en þó einkum þær, sem næst standa hugsanfræði, t. d. stærðfræði, og þá þær greinir, er kenna mönnum að athuga hlutina kring um sig. Þessa næringu þarf andinn að fá. En jafnframt á að þroska kendirnar, því að ella skrælnar andinn og kemst inn á hættulegar brautir. Loks er það hlutverk skólanna að varna því, að námstritið veiki vilja manna, og er það gert með fimleikum og því um líku.

Að þessu marki eiga skólarnir að vinna. Er nú fyrirkomulag skóla þessa, sem illu heilli er kallaður almennur mentaskóli á illa þýddri dönsku, svo lagað sem nú hefir verið bent til? Þegar athugað er, hvað hann gerir, verður að svara þeirri spurningu neitandi. Skal eg nú við leita að rekja það. Vera má, að óþarft þyki af mér að telja það í þessari samkomu, þar sem mörgum hér er þetta eins vel kunnugt og mér. En góð vísa er ekki of oft kveðin. Enn má og vera, að verði málið gleggra en áður.

Það er skoðun beztu manna, að höfuðatriði við hvern skóla sé það, að við hann sé kend ein aðalnámsgrein til þess að þroska anda nemenda. Við þennan skóla er engin slík grein kend. Áður skipuðu fornmálin þetta sæti, voru höfuðgreinin. Eigi verður því neitað, að mjög juku þau þroska manna með þeim hætti, sem þau voru kend. Þá var skólinn góður og vel kent, þá tíð sem eg þekti til, og engu lakari en samskonar skólar í öðrum löndum, þótt oft væri hann lastaður, svo sem títt er um landsmenn vora, að þeir lasta það, sem hérlent er, en lofa útlent. Þó voru þessar greinir heldur illa fallnar til þess að vera þungamiðja eða auka ándarþroska manna. Mun eg ekki orðlengja um það, því að það er erfitt mál. Vísa eg um það til umræðna á alþingi 1893. Jón Jakobsson, sem þá var alþingismaður, sýndi þá fram á þetta með góðum rökum. Er eg sammála rökum þeim, sem hann flutti þá, og vil ekki tefja tímann með því að telja þau upp né önnur, er víðar hafa komið fram, því að menn geta lesið þau. Eg vona, að allir séu mér samþykkir í því, að einhver þurfi höfuðgreinin að vera. Ef litast er um, hver grein sé bezt til þess fallin, sé eg ekki aðra betri en stærðfræði. Það vita allir, að sú grein er samhangandi kerfi, er temur menn að draga ályktanir af áður þektum hlutum; það eru afleiðslurök eða deductiones. En af því að þetta eitt nægir ekki til að þroska andann, verður líka að kenna aðrar greinir til þess að mönnum lærist að gera eða draga almennar setningar af einstökum atriðum, svo sem náttúrulögmálin, en þau eru rökstuddar getgátur (hypotheses), sem byggja má á, þótt ekki séu fullsannaðar. Þessi aðleiðslurök (inductiones) verður að láta nemendur temja sér. Til þess er náttúrufræði yfir höfuð bezt fallin, einkum þó með oss eðlisfræði, ekki af því að sú grein sé auðgari en aðrar greinir náttúrufræðinnar, heldur af því að menn geta í þeirri grein gert margar tilraunir í húsum inni á vetrartímum. Ef slíkur háttur væri hafður á kenslunni, væri breytt til batnaðar.

Nú fer því fjarri, að skólinn hafi verið lagaður á þessa lund. Reglugerðin er hið aumasta kák; svo virðist sem nemendum sé að eins ætlað að fá bragð eða nasasjón af greinunum. Eg skal með leyfi forseta lesa upp kafla því til sönnunar: Með því að athuga dýr og jurtir skulu nemendur hafa lært að athuga skaplega og vel og kunna að lýsa því, sem þeir sjá og greina aðalatriði frá aukaatriðum. Skulu þeir á þann hátt hafa kynst allra helztu tegundum jurta og dýra, sköpulagi þeirra og líffæragerð og hversu þetta er sniðið eftir lifnaðarháttum og dvalarstað og geta dregið einfaldar ályktanir er þar að lúta. Sömuleiðis skal þeim hafa verið kent að athuga skyldleika jurta og dýra. Þeir skulu og vita nokkuð um gagn það, er mennirnir hafa af ýmsum jurtum og dýrum.

Þetta er svo laust, að ekki verður unt að sjá, hvort kenna skuli eina stund á viku eða 20 og sé þó tæmt til hlítar.

Eða þá þessi kafli um eðlisfræði og efnafræði:

Nemendur skulu, einkum af einföldum tilraunum, þekkja algengustu fyrirburði í náttúrunni og lög þau, sem þeir hlýða.

Þetta er sama sem að segja mönnum að skoða »þær fjórar höfuðskepnur«, svo lítið er sagt um, hvað heimtað sé. Líkt er um reikning og þó ekki miður kynlegt, t. d. að heimta af nemendum að vita, hverjar tölur eru deililegar með 2, 4 o. s. frv., sem hverju barni er skylt að kunna undir fermingu. Öll er reglugerðin svo lausalopaleg, sem eg hefi nú fært dæmi til. Höfuðatriðunum er slept, en aukaatriðin talin upp. Sama er að segja um hina reglugerðina, lærdómsdeildarinnar, sem um reglugerð neðra hluta skólans. Hún er eins óljós. Alt er þar á tíningi og enginn veit hvað vantar, fyr en lesið hefir reglugerðina alla.

Eg hefi farið til hins hæfasta stærðfræðings hér og reynds kennara, Ólafs Daníelssonar, og spurt hann, hversu margar stundir þyrfti á viku til þess, að stærðfræði og eðlisfræði væru höfuðgrein. Hann hefir látið það uppi, að til þess nægðu 40 stundir á viku eða rúmlega það. Þetta kemur heim við mína reynslu bæði við nám hjá Birni Jenssyni og kenslu í hans stað, er hann var veikur. Til þess að vinna upp þennan tíma, þá mætti fella burtu kenslu í frönsku, latínu og guðfræði o. fl. Með leyfi forseta skal eg lesa upp skýrslu Ólafs. Hún hljóðar svo:

»Með því að hafa stærðfræði og eðlisfræði í 42 tíma á viku í skólanum ætti leikandi að mega fara yfir það, sem hér segir: Stærðfræði. Almennan reikning mætti iðka svo mikið, að nemendur fengju fullkominn fimleik í, að reikna þau dæmi, sem fyrir koma í daglegu lífi. Enn fremur mætti fara yfir reikning með ótilteknum stærðum yfir höfuð. Skyldi það vera samlagning, frádráttur, margföldun og deiling. Og enn fremur pótensa- og rótarreikningur með heilum tölum og brotnum, positivum og negativum, rationölum og irrationölum, reellum og complexum. Um líkingar af 1. og

2. stigi. Um logariþma og notkun þeirra við almennan reikning, einkum rentu- og annúitetsreikning og einfaldar exponentiellar líkingar. Um heilar tölur og prímtölur og ýmsar reglur, sem um þær gilda sérstaklega (svo sem Fermats og Wilsons’reglur). Um determinanta og notkun þeirra til þess að leysa n líkingar af 1. stigi með r n óþektum stærðum. Um takmarkagildi breytilegra stærða. ítarlega analysis á hugtökunum »óendanlega stór« og »óendanlega lítill«. Raðir, sérstaklega differensog kvotientraðir. Summation á konvergent kvotientröðum. Permutationir og kombinationir. Um (a + b) n þegar n er positiv og heil tala (Binomialformula).

Fullkomið ágrip af Evklíðs geometri, er eigi nái skemra, en þær bækur, sem brúkaðar hafa verið við skólann.

Lítið ágrip af analytiskri geometri (um beinar línur og keiluskurðarlínur).

Höfuðatriði trigonometríunnar (þríhyrningamælingar og trigonometriskar funktionir af summum og diflferensum horna).

Litið ágrip af stereometri (Um legu lina og flata; regulær polyaeder; Eulers reglu um polyaeder (með samhengistölunni o) kongruens og symmetri.

Rúmmál einföldustu líkama«.

Þetta er skýrsla Ólafs um stærðfræðikenslu. (Jón Ólafsson: Ekki er málið vandað á henni). Það er satt, að málið er ekki gott, og er það bending í þá átt, að full þörf sé á því, að kenslubækur sé samdar á íslenzku. En af því að nú hefir verið samþykt till. um, að semja kenslubækur á íslenzku, hefi eg ekki viljað taka fram fyrir hendurnar á vitrum og málhögum mönnum með því að þýða stærðfræðiheitin í skýrslunni.

Þá kemur eðlisfræði. Þar segir Ólafur að kenna eigi:

»Ágrip, er eigi fari skemra, en þær bækur, sem við skólann hafa verið notaðar. því ætti að fylgja fjöldi dæma. Enn fremur ætti að lesa ítarlega einhvern valinn kafla, t. d. mekanik eða ljósfræði (síður rafmagns- eða hitafræði, því þeir kaflar krefja ítarlegri og nákvæmari tilrauna). Mætti þá nota kenslubók Juliusar Petersens í mekaniskri eðlisfræði eða kenslubók Ellingers í ljósfræði með nokkrum styttingum.

Stjörnufræði, er eigi fari skemra en sú bók, er nú er notuð við skólann«.

Eftir minni hyggju mætti algerlega taka frönskuna burt. Kenslunni í henni er þannig varið, að fæstir njóta þar af verulegs gagns, sem og heldur er ekki að vænta, þar sem hún er ekki kend nema í tveim efstu bekkjum skólans.

Eg vil leiða athygli manna að því, að tungumálanám er ekki æfing nema fyrir næmi og minni, en það er hvergi nærri fullnægjandi. Yfir höfuð að tala mun það nægja hverjum manni að kunna vel enska og þýzka tungu.

Þá er latínan líka alveg ónauðsynleg, og þótt til hennar sé varið 23 stundum á viku, í þrem efstu bekkjunum, er það augljóst, að nemendur verða þar litlu nær.

Þá sé eg hér í þessari skýrslu, að einni stund á viku er varið til kenslu í fornaldarfræði; eg minnist ekki að hafa heyrt þá fræðigrein fyr nefnda á nafn, og mætti víst ætla henni rúm í hinni almennu mannkynssögu.

Loks mætti nefna til kristindómsfræðsluna, hún á að sjálfsögðu að leggjast niður í slíkum skólum. Fátt sem er eins fallið til að uppræta trúarkend ungra manna og ættu því trúaðir menn, að vera því fylgjandi, að nema þessa fræðigrein burt. — Væri þeirri kenslu algerlega hætt, sparaðist þó nokkur tími, sem verja mætti til líkamsæfinga, söngs og annara fagurra og nytsamra íþrótta.

Annars er fátt gremjulegra en það, þegar kenslan miðar helzt að því einu, að berja með valdi orð kennarans inn í nemendurna, og þeir eru við það vandir að »jurare in verba magistri.«

Það er sú hættulegasta aðferð, sem hægt er að beita við lítt þroskaða unglinga. Það er sú aðferð, sem gerir nemendurna ósjálfstæða í hugsjónum, og veldur því, að þeim nægir ef til vill ekki hálf æfi til þess að skafa af sér þessi þungu syndagjöld uppeldisins. — Öll kenslan á að miða að því að gera unglingana andlega sjálfstæða, kenna þeim að hugsa rétt og vilja vel, fegra og göfga hugsjónir þeirra með lifandi fræðslu í sögu lands og þjóðar, móðurmálinu, skáldskap, þekkingu á málverkum, sönglist og öðrum fögrum greinum.

Þá vildi eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um aldurstakmark nemenda við skólann; það hefir orðið nokkuð óvinsælt, sem eðlilegt er. — Þar er þetta hlægilega ákvæði, að menn megi ekki koma í skóla eldri en 15 ára. Svona lagað ákvæði virðist mér mesta endileysa.

Eg skil það, að menn megi ekki koma í skóla yngri en 12 ára, það er nokkuð vit í því. Eg hefi heyrt menn bera fyrir sig þá ómerkilegu ástæðu, að fullorðnir menn gætu ekki unað á skólabekk innan um tóma stráka. — Þeir um það. Enn halda sumir því fram, að eldri piltar stæðu að jafnaði fyrir óspektum. Þetta er ekki satt. Eg þekki þess mörg dæmi, að einmitt þeir hafa gengist fyrir samtökum um að halda á friði.

Eg þarf ekki að fjölyrða meira um þetta atriði, hygg öllum skiljist, að þetta aldurstakmark er með öllu óhafandi.

Þá er enn eitt ákvæði, sem eg vildi ekki láta óumtalað, og það er, að ef piltar einhverra orsaka vegna þurfa að vera utan skóla, mega þeir ekki ganga undir hvaða árspróf sem er. Þetta er stór-skaðlegt og hefir í för með sér margs konar leiðindi.

Þá höfum vér leyft oss að koma fram með áskorun þess efnis, að samræmi yrði komið á milli þessara tveggja skóla, Akureyrarskólans og gagnfræðadeildar hins almenna mentaskóla. Vona menn sjái, að það sé í alla staði sanngjarnt og sjálfsagt.

Skal eg svo ekki fara hér um fleiri orðum að sinni.