24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

119. mál, mentaskólamálefni

Flutningsmaður (Bjarni Jónsson):

Eg skal fara að dæmi síðasta ræðumanns, og ekki halda langa ræðu. Eg verð enn að halda því fram, að aðalatriðið við alla kenslu sé það, að veita manninum sem mestan andlegan þroska, en ekki hitt, að hann læri eitthvað það, sem getur komið honum að gagni, og get eg ekki verið hinum háttv. þm. samdóma. Að þetta sé gömul skoðun, haggar ekki við sannleiksgildi hennar, því þótt engin skoðun sé góð fyrir það eitt, að hún er gömul, þá er hins vegar engin skoðun verri þótt gömul sé, ef hún stendur óhrakin, og svo er um þessa; að minsta kosti er mér ekki kunnugt um annað, en að hún standi óhrakin enn þann dag í dag, og ef svo er, þá hlýtur það að vera einhver uppgötvun, sem mér er ókunnugt um, en það þykir mér ótrúlegt, að slík nýmæli mundu fara fram hjá mér. Nei, skólans hlutverk er að þroska manninn, en ekki að veita honum einhvern ákveðinn skamt af þekkingu. Það getur meir en rétt verið, að reglugerðin sé sniðin eftir norskum, sænskum og dönskum reglugerðum, en eg vil ekki gleypa við því, þótt frá frændum sé komið, og vil ekki af þeim orsökum leggja fyrir óðal það sem betra er.

En það væri heppilegri aðferð, að reglugerðina semdu menn, sem hafa kent og geta kent, en ekki þeir, sem aldrei hafa kent og enga hæfileika hafa til þess að kenna.

Mér er sama, hvort gallarnir áskólareglugerðinni eru norskir eða danskir, en hinu vil eg halda fram, að þeir lærðu menn, sem að henni hafa unnið, hefðu sannarlega átt að leggjast dýpra, en að setja sig niður við að þýða einhverja útlenda reglugerð. Um aldurstakmark skal eg ekki þrátta, en vil að eins benda á það, að margir af okkar ágætismönnum hefðu aldrei orðið stúdentar, ef það hefði verið áður, enda ekki aldurinn einn, sem skapar sálarþroska mannsins.

Þá var sagt, að erfitt mundi verða að halda aga, ef menn á mismunandi aldri væru í hverjum bekk. En það er þvert á móti, að það er miklu hægra að halda aga, og sannarlegur klaufi er sá kennari, sem ekki getur notað eldri piltana til þess að hjálpa sér að kenna — og til þess að halda aga. Það er annars undarlegt, að heyra svo mikið talað um aga. Hvað er agi? Líklega högg, barsmíð, að kennarinn verði að ganga með vöndinn í hendinni, eða svifta menn námsstyrk, eða brottrekstur úr skóla. Það er agi, eftir hugmyndum þeirra, sem hér hafa ráðið í skólamálum, en þegar maður fær nemandann til að hlýða sér með því að umgangast hann þannig, að hann veit ekki af því að hann er að hlýða — það telja þeir ekki aga. En hver leyfir sér að halda fram annari aðferð, er heppilegri sé? Og halda menn nú, að fullorðnir menn spilli fyrir aga í skólanum? Eg var við þennan skóla, þegar þar var agasamast, og eg get sannað, að eldri piltar, að nokkru fyrir mína tilstilli en að nokkru af eigin hvötum, hafa barist þar á móti agaleysi, og að það var ekkert annað en ofstjórn, sem olli þeirri óstjórn.

Í síðustu ræðu minni gleymdi eg að geta þess, að eftir þessari reglugerð eru kröfurnar við 3. bekkjar prófið svo litlar, að nemendur geta komist upp í lærdómsdeild með enga þekkingu.

Hér við bætist, að þótt það hafi ef til vill verið nokkuð strangt og hart tekið á þeim mönnum sem fengu 1, þá er það alt of lítið að láta það vera ÷ 8. Það getur orðið til þess að skifta verði 4. bekk, en ekki hitt, að menn muni sitja heima annað árið, en þyrpast í skólann næsta ár, eins og þm. Vestm. (J. M.) sagði. Aldur á ekki að koma hér til greina, eigi heldur hvort maðurinn hefir verið í skóla eða utan hans. Að eins að hann fullnægi þeim reglum sem settar eru um prófin, þá á hann að hafa fullan rétt til að vera í skólanum.

Frekar þarf eg ekki að svara ræðumanni, enda hefir hann engin rök fært fyrir sínu máli, sem eg ekki hefi hrakið.