24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

119. mál, mentaskólamálefni

Jón Magnússon:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um aga, eins og hann þektist hvergi nema hér. Veit hinn háttv. þm. ekki, að þann dag í dag er jafnvel viðhöfð barsmíð í enskum skólum, og að Englendingar hafa ekki reynst lakari öðrum þjóðum fyrir það, held eg að allir viðurkenni. Á Þýzkalandi er einnig mjög strangur skólaagi, og eg hygg alstaðar í löndunum kringum oss, strangari skólaagi en hér.

Þá mintist háttv. þm. á það, og gerði lítið úr því, að reglugerðin væri sniðin eftir útlendri fyrirmynd, því að hér ætti alt annað við. Eg hygg nú að sjálfsagt sé fyrir hverja þá þjóð, sem skamt er á veg komin í menningu, hvort er verklegri eða andlegri, að byggja á reynslu þeirra þjóða, er lengra eru á veg komnar.

Að síðustu skal eg láta þess getið, að skólareglugerð sú, er nú gildir fyrir mentaskólann, hefir fengið mjög góðan undirbúning, áður en hún var staðfest; hún var í fyrstu samin af manni, er hafði með styrk frá alþingi, ransakað og athugað sérstaklega skólamál hér og annarsstaðar, eg á við mag. Guðmund Finnbogason; síðan var hún athuguð af kennurum skólans, og loks nokkuð í stjórnarráðinu.

Nú skal eg ekkert hafa á móti því, að skólareglugerðin sé endurskoðuð, en eg álít rangt af háttv. deild að hrapa að því að heimta ákveðnar gagngerðar breytingar, og einkum tel eg rangt að önnur deild alþingis taki sér þetta vald að hinni deildinni (Ed.) fornspurðri.