04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

120. mál, húsmæðraskóli

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg get skírskotað til nefndarálitsins að nokkru leyti um þetta mál. Nefndin áleit málið mikilsvert og nauðsynlegt, þótt hún hafi ekki treyst sér til að koma fram með frumv. um húsmæðraskóla. Hún áleit eitt meginatriði þessa máls, að sérskólar fyrir konur séu ekki nauðsynlegir, nema þeir snúist sérstaklega að sérmentun kvenna, líkt og t. d. búnaðarskólarnir að sérmentun bændaefna. Og enn fremur: að það af sérmentun kvenna á að sitja í fyrirrúmi, sem nauðsynlegast er í daglegu lífi öllum þorra kvenna. Þannig lagaða sérskóla, sem legðu áherzlu á að veita konum nauðsynlega sérmentun, er meira vert að styrkja en aðra skóla. Vottur um að þetta sé rétt, er framþróun húsmæðrafræðslunnar í Noregi og Danmörku hin síðari ár. Og þessi frumatriði leggur nefndin einkum áherzlu á.

Það verður að leggja áherzlu á, að svo sé til hagað, að sem flestar fátækar konur geti aflað sér þessarar mentunar, því þær þurfa þess með engu síður en þær ríkari.

Vitaskuld er, að önnur sérfræðsla, sem lýtur að fínni störfum kvenna, svo sem vefnaður, hannyrðir o. fl., eykur fegurðartilfinninguna, smekk og handlægni og getur því verið góð og nauðsynleg. En hún er frekar fyrir hinar efnaðri konur. Mikill þorri alþýðukvenna á ekki kost á að ná í aðra fræðslu en þá allra óhjákvæmilegustu, og getur eigi gengið á þá skóla, sem ná lengra eða taka meira fyrir. — Þess vegna er ekki eins áríðandi fyrir löggjafarvaldið að styðja þá.

Annað höfuð-atriðið er, að hér er um jafnréttiskröfu kvenna að ræða.

í þessu máli er fólgin krafan um það, að húsmóðurstaðan sé metin fullkomlega eins mikils og bóndastaðan, eða hver önnur mikilsverð staða í lífinu, og þurfi að sínu leyti eigi síður fræðslu við. Húsmóðurstaðan er nú viðurkend í orði en hún er eigi viðurkend á borði, fyr en þessari stöðu er veittur eins góður undirbúningur að sínu leyti og öðrum. Þetta er því krafa, sem ekki ætti að sitja í halla fyrir öðrum jafnréttiskröfum kvenna, heldur fremst þeirra allra.

Hæstv. ráðherra (B. J.) talaði hér áður í deildinni vel um jafnréttiskröfur kvenna og vildi ekki að það mál drægist neitt í hömlu. Eg vona því að hér muni fást fylgi ráðherrans og hann muni taka málinu vel.

Vér höfum ekki í nefndarálitinu farið mikið út í það, hvernig málinu ætli að haga í framkvæmdinni. En vér höfum drepið nokkuð á það, hvernig því er háttað hjá Dönum og Norðmönnum. Eg skal taka fram nokkrar bendingar, til að sýna hvað fyrir oss vakir um það, hvernig framkvæmd málsins gæti verið heppilegust, án þess þó að gera oss að nokkrum spámönnum eða sérstökum ráðunautum í þessu efni.

Eftir reynslunni í Noregi mætti telja hér vel skipað, ef settir væru fyrst á stofn 2 húsmæðraskólar í sveit, líkt og frumv. það gerði ráð fyrir, sem lagt var fyrir þingið 1907.

Skólar þessir hefðu 6—7 mánaða námsskeið væru þeir kostaðir af landssjóði líkt og bændaskólarnir. Svo væru færanlegir skólar út um landið, eins og í Noregi. Þeir stæðu 2—3 mánuði í stað á nokkrum stöðum í héraðinu og færði kenslukonan sig á milli þeirra. Þetta fyrirkomulag gæti orðið hentugt hér. Kostnaðinn mætti leggja fram þannig: Sveitarfélagið legði til skólahús og helztu áhöld. Mætti hafa skólana þar sem góð og mikil húsakynni eru og sérstaklega þar sem til eru góð fundarhús. — Landið legði til kensluna en nemendur gætu lagt sér sjálfir til fæði og haft félagsmötuneyti, eins og hér hefir verið títt við suma skóla, 1Því það yrði kleyfara fyrir fátækar námskomur.

Í þriðja lagi ætti svo að vera, að umferðakenslunni væri haldið áfram, því eins og tekið er fram í nefndarálitinu þá væri ekki þrátt fyrir föstu skólana og færanlegu skólana, búið að sjá öllum þeim fjölda af húsmæðraefnum fyrir fræðslu, og gætu þær, sem ekki kæmust á þessa skóla, eða ekki hefðu efni á því, notið farkenslunnar. Umferðakenslan hefir reynst mjög vel og orðið til mikillar vakningar. Eins og tekið er fram í nefndarálitinu hefir þessi umferðakensla magnast mjög í Danmörku og gefist þar vel. Konurnar hafa furðu mikið gagn af henni, þótt kensluskeiðin séu afar stutt.

Ef föstu skólarnir kæmust upp, þá gætu þær af námskonunum, sem færastar væru, fengið að vera þar næsta námstíma til að fullkomna sig þar betur, og gætu þær þá jafnframt létt undir með kenslukonunum með því að taka þátt í kenslunni. Með þessu móti lærðu þær einnig að segja öðrum til.

Þá er þessu næst að sjá fyrir nægum kenslukröftum. Í Noregi hefir skortur á kenslukonum staðið húsmæðrafræðslunni mest fyrir þrifum. Það yrði dýrt og óheppilegt að senda allar kenslukonur út úr landinu til slíks náms. Þess vegna þyrfti að hafa undirbúningsskóla fyrir kenslukonur. Mér hefir dottið í hug, að kvennaskólinn hér gæti tekist á hendur þessa fræðslu. Í Noregi hefir ekki verið nema einn skóli fyrir kenslukonur til þessa, og hann prívatskóli. Nú næstliðið ár hefir verið komið upp kenslukonuskóla í Kristjaníu, og er honum komið á fót af ríkinu. Eg verð að leggja áherzlu á, að mikið ríður á að sjá fyrir nægum kenslukröftum í landinu.

Mér þykir rétt að drepa á hugmyndir okkar um það, hvað kenna ætti í húsmæðraskólunum. því styttra, sem kensluskeiðið er því minna er hægt að sinna bóklegri fræðslu, og á umferðaskólunum verður henni ekki við komið að neinum mun.

Síðan að kvenfólkið fór að nota unglingaskóla, og aðra almenna skóla landsins, þá fær það eða getur fengið sömu almennu mentun og karlmenn. Á hinum föstu húsmæðraskólum ætti því að hafa inntökupróf, þar sem krafist væri að minsta kosti góðrar barnafræðslu eða þess sem numið er í framhaldsbekkjum barnaskóla. Bóklega kenslan á húsmæðraskólunum væri því strax hneigð að sérfræðslu skólans, t. d. reikningskenslan miðuð við verkahring konunnar o. s. frv. — Móðurmálið ætti að leggja mikla áherzlu á, því væri það ekki, gæti svo farið, að það spiltist við notkun útlendra bóka og útlendra orða við verklegu kensluna. Þar er alvarleg hætta. Upplestur á kveldum á góðum íslenzkum bókum ætti að stuðla að því, og í stuttu máli gera skólann að heimili í góðum gömlum stíl, þar sem fólkið sæti að handvinnu en einn læsi upp. Áhrifin þurfa að vera eins og af fyrirmyndarheimili.

Aðalþungamiðja verklegu kenslunnar verður í matreiðslu, nýmjólkurmeðferð og þess kyns búverkum. Þar þarf að fá góða upplýsingar um, hvað er hollast, og hvað er sparlegast í meðferð matvælanna eftir staðháttum. Hreinlæti, þrifnað og reglusemi er sjálfsagt að leggja áherzlu á, bæði óbeinlínis í verknaðinum sjálfum og beinlínis sem nám, svo sem þvott, ræsting o. s. frv. Þar þarf að ná því takmarki, að þrifnaðurinn verði æfing og list, sem ekki tefji mjög, heldur greiði fyrir verknaðinum. Handvinnu ætti auðvitað að kenna, því þó að segja megi, að flest íslenzkt kvenfólk kunni að prjóna og halda á nál, þá er það þó misjafnlega af hendi leyst, og kenslan ætti að miða að því að kenna nemendunum smekk og gott handbragð og fallegt. Einnig þyrftu þær að kunna að sauma og bæta plögg og nærföt og barnaföt, svo að þær geti saumað utan á sjálfar sig. Í þessu þarf markmiðið einnig að vera þrifnaður og nýtni. Einnig ætti að kenna þar þvott og það sem því viðkemur, svo sem meðferð á líni og þessháttar. Yfir höfuð ætti að kenna þar, það sem húsmæður helzt hafa gagn af að læra, og hagkvæmlega stjórn og kunnáttu í öllum hlutum og hagsýni. Eg er sannfærður um, að komist þessi hugmynd í framkvæmd, þá fjölgar þeim heimilum stórum, og einkum hinum fátæku heimilum, þar sem við vegfaranda blasir þrifnaður og snyrtileg framkoma, og eg þori að segja: þar af leiðandi velmegun. Og þetta á að vera markmiðið. —

Eg vil taka það fram, að nefndin er á einu máli um, að húsmæðraskólarnir eigi að vera í sveit. Það er stór meiri hluti húsmæðranna sveitakonur, og þær verða að læra sín störf á sveitaheimili. Á hinn bóginn hafa kaupstaðarkonur engan baga af því, þótt þær fari upp í sveit um tíma; þar geta þær lært það flest sem þeirra húsmóðurstaða krefst af þeim, og svo er auðvelt fyrir þær að bæta við á þeim prívatskólum, sem til eru t. d. hér í Reykjavík.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. — En vona að þetta mál fái framgang sem allra fyrst, og hefi eg raunar talsverða ástæðu til að halda að ekki verði þess langt að bíða, þar sem, eins og kunnugt er, að hæstv. ráðherra (B. J.) er kvenfrelsismálinu hlyntur, og býst eg því við, að hann taki þessu máli tveim höndum.