18.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

11. mál, fiskimat

Sigurður Stefánsson:

Eg tel það vel farið, að þetta frumv. kom nú fram, og að stjórnin hefir fylgt fram vilja síðasta þings. Málið er afar þýðingarmikið, og það hefir komið ljós, að þeir tveir fiskimatsmenn, sem undanfarin ár hafa starfað á 2 mestu útflutningsstöðum landsins, hafa fengið töluverðu áorkað til bóta saltfisksverkuninni. En mér er kunnugt um það, að á Ísafirði hafa kaupmenn ekki notað fiskimatsmanninn af því að svona lög vantaði, en það hefir orðið til þess, að fiski frá Ísafirði hefir hrakað nú upp á síðkastið, þar sem Suðurlandsfiskurinn hefir stöðugt fengið betra og betra orð á sig, síðan kaupmenn þar tóku að láta hina lögskipuðu fiskimatsmenn meta hann. En þetta má ekki svo til ganga, og er því ærin nauðsyn, að fiskimat verði lög skipað um land alt. Eg sting upp á 3 manna nefnd í málið.