04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

120. mál, húsmæðraskóli

Björn Sigfússon:

Háttv. þm. S.-Þ, (P. J.) svaraði fyrirspurn minni þannig að hann ætlaðist til að frumv. yrði lagt fyrir næsta þing um þetta efni. Eg bjóst líka við að það væri meiningin.

Eg skal ekki fara langt út í það mál, hvort það sé almennur þjóðarvilji, að stofnaðir sé 2 dýrir hússtjórnarskólar með 7 mánaða námstíma. Eg held að of snemt sé að fullyrða það; slíkt hefir als ekki verið borið undir þingmálafundi eða þjóðina á nokkurn hátt. Mér vitanlega hafa engar óskir komið fram um þetta, nema ef til vill í Þingeyjarsýslu og lítilsháttar í Eyjafirði. Stjórn Eiðaskólans hefir líka sótt um styrk til að stofna húsmæðradeild fyrir þann skóla, en sýslunefndir Múlasýslnanna hafa als ekki óskað þess. Það er því að eins á þessum tveimur blettum á landinu, sem málinu hefir verið hreyft, og er því ekki rétt að vitna hér í neinn þjóðarvilja. Mér virðist því þessi áskorun til stjórnarinnar helzt til hvatvísleg.

Hitt er mér fullkunnugt, að hin stuttu námsskeið fyrir húsmæðraefni, sem búnaðarfélag Íslands hefir stutt og hvatt til, hafa þótt bera töluverðan árangur og orðið vinsæl.

Að vísu er það eigi eins yfirgripsmikil fræðsla, sem einstaklingurinn fær með því móti, eins og með langri skólavist, en hún verður miklu almennari. Hugsum oss, að 2 skólar séu reistir, annar á Suðurlandi og hinn á Norðurlandi. Mundu þær ekki verða tiltölulega fáar konurnar og húsmæðraefnin, sem hefðu tíma og fé til að nota þá vetrarlangt. Það yrðu þær þó að gera, einkum þær sem úr fjarlægð sækja. Í þessu máli sem öðrum er um að gera að finna þá praktiskustu leið, sem farin verður. Eg hygg að málið myndi fremur græða en tapa á því að bíða og svo ætti að bera það undir þingmálafundi. Hér er margs að gæta. T. d. væri hugsanlegt, að breyta eitthvað til með kvennaskóla þá sem nú eru, svo kostur væri að veita þar slíka fræðslu, hafa svo stuttu námsskeiðin að auki og sem víðast. Hitt getur verið gott, að stjórnin taki málið til íhugunar og ransókna, og væri æskilegt, ef hún gæti útvegað gleggri skýrslur. En það er nokkuð annað en að hún leggi frumv. fyrir þingið.

Mér skildist á háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), að hann vildi eigi hafa skólana tvo. (Pétur Jónsson: Hann vildi hafa þá fjóra.) Á síðasta þingi var farið fram á að stofna tvo slíka skóla, það er líka hugsun flutnm. og við það hefi eg haldið mig.

Eg sé ekki, að þessi tillaga eigi neitt sérstaklaga skylt við kvenfrelsismálið, svo að þeir geti verið því máli jafnt unnandi, sem ekki fella sig við tillöguna, eins og hún er. Ef till. væri skift við atkvæðagreiðsluna, myndi eg geta greitt atkv. með fyrra helmingi hennar.