04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

120. mál, húsmæðraskóli

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg er þakklátur þeim háttv. þingd.m., sem gefið hafa bendingar í máli þessu, sérstaklega háttv. þm. Snæf. (S. G.) og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.). Hér er eigi farið fram á annað, en að stjórnin leiti upplýsinga um málið, og leggi ákveðnar till. fyrir þingið. Það ræður síðan hvað það gerir við það. Eg vil geta þess, að eg hefi talað við hæstv. ráðherra um tillögu þessa, og hafði hann ekkert við hana að athuga. — Þar sem háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að það væri viðsjárvert að hafa skólana tvo, þá sé eg eigi annan mun á okkur, en að hann vill hafa skólana fjóra þegar í stað. En svo djarfur er eg ekki.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) hafði meðal annars það að athuga við þessa 2 föstu skóla, sem eg mintist á, að óvíst væri, að þeir fengi nóga aðsókn. En eftir aðsókninni að kvennaskólunum að dæma, þá hygg eg víst megi búast við nægilegri aðsókn að skólum, sem meir eru sniðnir eftir þörfum almennings, og mikið ódýrara er að sækja. Eg skil ekki í þeirri afar-varúð, sem háttv. sami þingmaður hefir gagnvart svona áskorun á stjórnina. Það er ekki rétt, að þetta mál sé lítið undirbúið. Það er betur undirbúið, en nokkurt frumvarp af þingmanna-hálfu á þessu þingi, og þó er ekki ráðist í meira, en að skora á stjórnina, að undirbúa það enn meira.

Mér fanst framan af þessu þingi, að hin háttv. deild vera til með að skora á stjórnina um alt mögulegt, jafnvel að moka skít fyrir ekki neitt. Það er því merkileg varúð, að vilja nú ekki skora á hana um þetta mál, sem er vandlega hugsað og undirbúið, og næsta þing hefir svo fult sjálfdæmi um, hvað við er gert.