04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

120. mál, húsmæðraskóli

Magnús Blöndahl:

Eg er þakklátur landbúnaðarnefndinni fyrir það, hve vel og rækilega hún hefir íhugað þetta mál, þótt eg ekki geti verið fullkomlega ánægður með niðurstöðuna.

Eg hygg að tilganginum hefði alveg eins vel mátt ná með því, að koma núverandi kvennaskólum í það horf, að þeir gætu tekist þetta á hendur, og þar sem er jafn-góður stofn að byggja á og þeir eru, mun það affarasælla, enda hægra, að styðja en reisa.

Það er og einatt verið að breyta kvennaskólunum í meira og meira praktiskt horf, og þingið hefir veitt talsvert fé til þessara skóla, þótt eg fyrir mitt leyti játi, að það er alt of lítið. Ef nýir skólar kæmu, sem styrkja þyrfti, er mjög svo hætt við, að styrkurinn til þeirra skóla, sem nú eru, yrði enn meira takmarkaður. — Tel eg farkenslu mjög svo heppilega, og álít, að hún geti komið að mjög miklum notum, og vil eg biðja þingið að styðja hana. Álít eg og affarasælla að styðja þá skóla, sem til eru, og gera þá sem bezt úr garði, en að stofna nýja skóla. Að minsta kosti vil eg fyrst láta ransaka, hvort þeir skólar, sem eru, eigi geti fullnægt þeim kröfum, sem gerðar eru til húsmæðraskóla, ef styrkurinn og kenslan eru aukin.

Eg tek eigi til mín orð háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), til þeirra manna, sem gangi með kvennfrelsið á vörunum, en vilji ekkert gera fyrir málefnið. Eg man svo langt, að þegar verið var að tala um það, að veittur væri styrkur til kvennaskólans í Reykjavík, svo að hann kæmist í viðunanlegt horf, þá vann hann á móti því, svo sem hann gat.

Eg get eigi greitt þessari þingsályktunartillögu atkvæði mitt, vegna þess, að eg er hræddur um, að þetta mundi skemma okkar góðu kvennaskóla, sem vér nú eigum. Aftur á móti mundi eg vera með því að setja húsmæðraskólana í samband við bændaskólana, ef það álitist heppilegra.