17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

122. mál, manntal

Jón Magnússon:

Eg hygg fyrir mitt leyti, að þessi tillaga sé góð, en menn verða að gæta þess, að til þess að koma þessu í framkvæmd er óumflýjanlegt að taka þetta inn á fjárlögin. Þarf á þessu fjárhagstímabili að veita til þess 4000 kr. að minsta kosti, og 3000 kr. næsta fjárhagstímabil. Pappír og prentun eyðublaða mundi kosta 2000 kr. eða meira. Við síðasta manntal varð sá kostnaður 1700 kr., en hann hlýtur að verða að mun meiri nú. Til að vinna að skýrslum þarf 4 menn, og mætti ráða til þess verks menn, er ekki væru mjög kaupdýrir, en sem þó gætu leyst starfann eða sýslanina viðunanlega af hendi. Mætti gera ráð fyrir að borga þyrfti hverjum þeirra með 4—5 klukkustunda vinnu á dag, ca. 50 kr. um mánuðinn. Það gerði þá 2400 kr. árin 1910 og 1911. Eg geri ráð fyrir, að 3. skrifstofan í stjórnarráðinu hafi umsjón yfir verkinu og annist nauðsynlegan undirbúning þess. Þyrfti hún þá 2000—2500 kr. á þessu fjárhagstímabili. 1912 mundi það kosta als minst 7000 kr. Eg segi þetta ekki til að fæla menn frá þessu, heldur er eg að eins að benda á að veita þurfi fé til þessa fyrirtækis.