17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

122. mál, manntal

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) gaf ýmsar rækilegar upplýsingar um kostnað þann, er hann ætlaði að verða mundi við það að taka manntal og ganga frá því hér á landi. Hann má bezt vita sjálfur, hinn háttv. þm. (J. M.), hvort hann hefir ekki borið fullmikið mál í kostnaðinn. En þótt nú kostnaðurinn yrði svo mikill, sem hann segir, vil eg biðja menn að setja það ekki fyrir sig, því að eg ætla að kostnaðurinn verði aldrei svo mikill, að það borgi sig ekki á marga vegu, þegar als er gætt að fá manntalið tekið hér og frá því gengið hér. Danir hafa hingað til unnið hagfræðina úr því eftir sínu höfði, en engan veginn á þá leið, sem vér mundum hafa gert og gera. Eitt fyrir sig er það, að vér höfum nú ekki hér í landi fengið neitt yfirlit yfir mannanöfn í landinu í 50—60 ár, sem kemur án efa af því, að Danir hafa ekki auga fyrir því, að það sé svo sem neins virði fyrir okkur.

En það, sem hér vantar sárlegast eru árlegar alsherjar skýrslur um hag landsins á alla vegu með þeim útskýringum og hugleiðingum, sem nauðsynlegar eru. Þyrftu slíkar skýrslur ekki einungis að vera gefnar út á íslenzku, heldur væri nauðsyn á að ágrip af þeim kæmi út bæði á einhverju af norðurlandamálunum og svo á einhverju af höfuðmálunum, þýzku, ensku eða frakknesku. Á þessu þarf ekki að búast við að bót verði ráðin fyrri en hagfræði vor öll er í vorum eigin höndum, og að henni tekið að hlynna meir en gert hefir verið. Kæmist hér og á regluleg hagfræðaskrifstofa með nægum starfsafla, mætti ætla að í gegnum hana fengist smámsaman á auðveldan hátt mörg þekking á viðskiftum og viðskiftahagræði við önnur lönd, sem nú er og hefir lengi verið tilfinnanlegur skortur á hér. Eg fæ því ekki skilið, að það sé neitt, sem með rökum geti mælt móti tillögu þessari, og hlýt eg að ætlast til að hún verði samþykt.