05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

123. mál, Guðbrandsbiblía

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) gaf góðar upplýsingar um ákvæði þau, er gildi á Englandi um endurkröfurétt (reclamation) jafnframt því sem hann þykist vita, að óþarfi sé hér að fara í mál, þó ekki sé óhugsandi að það gæti unnist. Alt af er að vísu hægt að hefja málaþrætur, en betra er þó um leið að sjá sér veg til að komast út úr þeim. En eg ætlast ekki til þess, að hér þurfi að koma til neinna málssókna. Annað mál er það, að eg vorkenni stjórninni ekki, þó að hún verði að hafa dálítið fyrir þessu máli, því að bæði er málefni þetta svo vaxið, að vansalaust er ekki að láta það kyrt, og svo er bókin sjálf þess virði, að nokkuð sé haft fyrir að fá hana aftur. Skilvísir menn hafa sagt mér, að þessi kona muni alls ekki hafa ætlað sér að selja bókina, enda hafi hún vitað, hvernig hún var að henni komin, og að hún muni fús að láta nefnda bók af hendi aftur. Hana hafi jafnvel stanzað á ræktarleysinu, sem lýsti sér í því að gera slíka hluti að verzlunarvöru. En vegir til þess að fá bók þessa aftur, virðast geta verið margir, meðal annars láta biskup landsins gera ráðstafanir til að ná bókinni. Líka mætti blátt áfram gera mann eftir henni.

Mig minnir að Gunnlaugur Pétursson eða einhver annar skýr og skilmerkilegur maður hafi sagt mér, að hann vissi, hvar kona þessi ætti nú heima. Annars er ekki mjög líklegt, að hún hafi flutt sig búferlum síðan 1903. Það er ekki mjög líklegt, að kona, sem hefir efni á að gefa 324 kr. fyrir eina bók, búi á flækingi. — Ekki ósennilegt, að hún búi í sínu eigin húsi í Lundúnaborg. En þótt svo væri að hún hefði flutt sig, þá er til bók, sem Englendingar kalla Directory — ef eg kann að nefna það —, en það er »vegvísir« eða »bæjarskrá«, og mætti líklega finna konu þessa eftir þeirri leiðbeining.

Önnur eins bók og Guðbrandsbiblía er sómi og höfuðprýði bókmenta vorra. Og þetta eintak hennar er gersemi, sem þjóðbókasafn vort verður að ná að geyma. Eg get þess vegna ómögulega — svo eftirlátur sem eg annars vildi af persónulegum ástæðum vera við hinn hæstvirta umboðsmann ráðherrans (Kl. J.) — að verða við þeim tilmælum að taka tillögu þessa aftur. — Enda veit eg, ef eg gerði það, að hún mundi jafnharðan verða tekin upp af öðrum þingmönnum. Eg get heldur ekki séð, að nein óþægindi geti af till. stafað fyrir landsstjórnina. Þó að ekkert væri annað en sómatilfinningin, þá ætti hún að vera ein ærin til þess að knýja menn til þess að láta þetta mál ekki afskiftalaust. Það er engin þarfleysa að reka af sér það háðungarorð, að kirkjur landsins, musteri guðs meðal lýðsins, sé »óstraffað« gerðar að sölubúð og ræningjabæli, og að gersemar kirkjunnar hér sé hafðar á boðstólum angurlaust á skytningum og í drykkjukrám landsins fyrir hvern ferðalang, sem kaupa vill. Kirknaránið hefir nú um mörg ár geisað svo óskaplega yfir þetta land, að það virðist mál komið að gera því ofurlítinn farartálma eftirleiðis, og kenna mönnum, að það verði ekki látið alveg afskiftalaust framvegis.