05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

123. mál, Guðbrandsbiblía

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Ef ætti að fara að setja menn til að hafa eftirlit með því, er prenta á hér á þinginu, þá veitti ekki síður af að gæta að því, að þingmönnum héldist ekki uppi að tala hér á þingi svo af engu efni og engum röksemdum, sem hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) nú gerði. Honum þótti meðal annars málið svo smávaxið, að það hefði ekki verið þess vert, að það kæmi fram hér á þingi. En hvers virði er þjóðarsóminn og þjóðarheiðurinn? Hvenær verður hann of dýru verði keyptur? Eg spyr svo, af því að eg lít á þetta mál frá þeirri hlið, og þá sýnist mér málið stórvaxið, og h. þm. ekki vera upp úr því vaxinn að eiga við það á þingi hér.

Þingmanninum þótti það vera að ganga fram hjá stjórnarráðinu að koma með þetta mál nú inn á þing. Þessi orð þingmannsins komu mér mjög á óvart einmitt frá honum. Hann hefir sjálfur um mörg ár verið einn af æztu vörðum hinnar íslenzku kirkju, og einn af yfirvörðum allra þjóðmenja landsins, og í samfleytt sex ár hefir honum verið kunnugt um þetta mál, og þó hefir hvorki hann né stjórnarráðið hrært legg né lið til þess að fá á því neina leiðréttingu. Það situr því ekki sem bezt á þessum háttv. þingmanni að tala um, að óþarfa afskiftasemi komi hér fram. Hér er ástæða til að láta ekki afskiftalaust. Hitt var og miður heppilegt, sem þm. sagði, að eg hefði sem landsskjalavörður átt að láta mál þetta til mín taka. En eg skal fræða hann á því, að sem landsskjalavörð varðar mig þetta mál einkis — skjalasafnið er hvorki bókasafn né fornmenjasafn —, en sem þingmann varðar mig það mikils, og eg álít skyldu mína að skifta mér af því hér.