20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

127. mál, lending í Bolungarvík

Björn Sigfússon:

Eg vil leyfa mér að skjóta því til háttv. flutningsm. þessarar till. (Sk. Th.), hvort honum sýnist ekki rétt, að hún sé afgreidd hér í deild eins og aðrar samskonar till., sem afgreiddar voru hér fyrir skömmu.

Þá var haft á móti því að koma fram með óskir í þingsályktunarformi um skoðanir verkfræðinga á ýmsum mannvirkjum. Það var þá talið óþarft og óviðeigandi aðferð, vegna þess, að landsstjórnin gerði það hvort sem væri, og það lægi næst því að vera móðgun við verkfræðingana. Tillögurnar voru því afgreiddar með rökstuddri dagskrá. Eg vil t. d. benda á eina af þessum till., sem stóð mjög líkt á með, og þetta mál. Hún var um það, að verkfræðingurinn skoðaði höfnina á Sauðárkrók.

Mér virðist meira samræmi í því, að þessi tillaga sé afgreidd á sama hátt.