22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

130. mál, samgöngumál

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi þegar áður getið um, að nýtt tilboð liggur fyrir þinginu frá því Sameinaða og er þar ekki gert ráð fyrir bygging nýrra skipa. Eins og peningamarkaðurinn hefir staðið að undanförnu hefir félagið ekki séð sér fært gegn því tillagi, sem í boði er, að ráðast í þann mikla kostnað. Aftur á móti vill félagið breyta þannig til um ferðirnar og skipin, að í staðinn fyrir eitt af þeim skipum, sem nú fara á milli landanna, gangi skip með frystirúmi t. d. Botnia eða eitthvert annað af þeim skipum félagsins, sem ganga milli Esbjærg og Englands, að minsta kosti einhvern hluta ársins. Að svo miklu leyti sem mér er kunnugt er ekki í ráði, að félagið sendi neinn mann til að semja við þingið, að minsta kosti var það óráðið, þegar eg fór frá Höfn í janúarmánuði, en að því er snertir breytingu á smáatriðum í tilboðinu og áætluninni er hægt að símrita til forstjóra félagsins. Mér þykir eðlilegast, að mál þetta verði falið fjárlaganefndinni en ekki skipuð sérstök nefnd í málið.