22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

132. mál, fiskiveiðamál

Magnús Blöndal:

Eg tel það ekki ómaksins vert að eltast við allar vitleysurnar og mótsagnirnar, er komið hafa fram hjá 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), en skal að eins geta þess, að eg átti nýlega tal við hann um verzlunar- og atvinnulöggjöfina og var hann mér þá fyllilega samdóma um, að brýna nauðsyn bæri til að laga hana og endurbæta sem fyrst að dæmi nágrannaþjóðanna.

En nú stendur hann upp og finnur þessari viðleitni alt til foráttu.

Eg veit það vel, að háttv. þm. hefir aldrei sannfæringarfastur verið; — en jafnmikinn vindhanaskap og mótsagnir við sjálfan sig hafði eg þó tæpast búist við, að hann sýndi hér í þingsalnum.