24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

135. mál, landbúnaðarmál

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Okkur flutningsmönnum þessarar tillögu kom saman um það, að vel ætti við að skipa nefnd til þess að ræða landbúnaðarmál okkar ekki síður en önnur mál. Einn mikilsverður þingmaður gat þess reyndar við mig, að nú væri minni ástæða til þess að skipa slíka nefnd, en verið hefði áður, með fram vegna þess, að landbúnaðarfélagið og búnaðarþingið mætti skoða, sem stóra standandi nefnd. En verksvið þess er mjög takmarkað, með því að það hefir aðallega til meðferðar ráðstöfun á ákveðnu fé til ákveðinna fyrirtækja, sem því er ætlað að styrkja.

Landbúnaðurinn er annar aðalatvinnuvegur landsins, og svo má að orði kveða, að hann sé hyrningarsteinn undir tilveru þjóðarinnar.

Eg vil leyfa mér að benda á nokkur mál til athugunar fyrir þessa nefnd. Stjórn búnaðarfélagsins fór þess á leit við stjórnarráðið með bréfi dags. 7. sept. f. á., að það áætlaði einhverja fjárupphæð á fjárlagafrumvarpi því, er liggur fyrir þinginu til að lána sveitarfélögum til stofnunar kornforðabúra til skepnufóðurs, og tók stjórnin því vel. Þetta mál er ekkert nýmæli á þinginu, og var mjög rætt um eitt skeið. En nú hafa ýmsir litið svo á það, að þörfin væri minni, vegna símans og aukinna samgangna. En það er þó ekki einhlítt, og vil eg því leyfa mér að benda á, að oft vill það til, að hafnir eru lokaðar af hafís, langan tíma ársins, og þar er enn þá brýn þörf á stofnun slíkra forðabúra. Jafnvel þó um íslausar hafnir sé að ræða, þá hagar sumstaðar' svo til, t.d. í Skaftafellssýslunum og víðar, að lítil tök eru á því að ná að sér fóðurbirgðum um langan veg að vetrinum, ef fóðurskort ber að höndum. — Það vakir fyrir mér, sem þýðingarmikið atriði, að löggjafarvaldið taki þetta mál að sér, og gefi heimildarlög um lánveitingar til forðabúranna, og jafnframt reglur um endurnýjun kornsins, eftirlit með búunum og fleira, til þess að slíkar stofnanir biðu ekki halla og komi að tilætluðum notum.

Annað atriði, sem eg vil leyfa mér að benda á, er um girðingar. Þær eru stöðugt, að færast í vöxt, og heilar sveitir hafa gert samgirðingar, t. d. Glæsibæjarhreppur og Fljótshlíðarhreppur. Samgirðingar þurfa mikið eftirlit og viðhald, eins og allar girðingar yfir höfuð. Löggjafarvaldið ætti að gefa heimildarlög fyrir sýslunefndir til þess að gera samþyktir um eftirlit á girðingum þessum.

Í Noregi eru til lög um þetta efni, sem innihalda ákvarðanir um takmörkun á notkun gaddavírs, viðhalds girðinga o. fl.

Í þessu sambandi vil eg einnig minna á það, hvernig girðingar eru lagðar með fram vegum. Ákvæði um það eru þó til í vegalögunum frá 1907, en þau þyrftu að skýrast. Sama er að segja um umbúnað á hliðum o. s. frv. Þetta eru að eins lauslegar bendingar til nefndarinnar.

Þá vil eg minna á ábúðarlögin frá 12. jan. 1884. Þau lög eru mjög úrelt að ýmsu leyti og þyrftu að breytast. — Þegar milliþinganefndin í landbúnaðarmálinu var skipuð, þá vakti það fyrir mönnum, að þessari nefnd væri einkum ætlað að taka ábúðarlögin til endurskoðunar.

Nefndin sá sér það ekki fært, en lagði þar á móti áherzlu á sjálfsábúð í landinu. Má í því efni minna á lögin um sölu þjóðjarða frá 1905, og lögin um forkaupsrétt leiguliða frá sama ári, er höfðu þann tilgang, að auka sjálfsábúðina.

Virtist svo, sem nefndin með þessu ætlaðist til, að flestar eða allar jarðir kæmust smátt og smátt í sjálfsábúð, og að lögin frá 12. janúar 1884 yrðu með því óþörf og féllu úr gildi.

Í sömu átt fara lögin frá síðasta þingi um sölu kirkjujarða. En er nú með þessum lögum fengin nokkur veruleg trygging fyrir sjálfsábúðinni?

Því hefir verið haldið fram, að sjálfsábúð mundi verða hið tryggasta meðal til búnaðarframfara, en eg efast um það.

Fyrst má geta þess, að fjöldi manna ræðst í jarðakaup, sem ekki hafa ráð á því, og margur deyr, áður hann er orðinn reglulegur eigandi jarðarinnar. Menn leggja á sig þungar byrðar með þessu og það um skör fram og gera sig lítt færa til að bæta jörðina eða sýna henni sóma, sem ætti þó að vera aðalatriðið í þessu máli.

Nokkru öðru máli er að gegna með þá, sem hafa efni á því að kaupa jörðina, en þó ber þess að gæta, að engin trygging er fyrir því, að hún haldist í ættinni og afkomendur hans njóti hennar; þvert á móti vill það oft til að engir ættingjar hans vilja ekki eða geta ekki haldið henni og lendir hún þá oft í eign óviðkomandi manna eftir hans dag. Yfir landið gengur nú stór gróðabrallsalda, sem stefnir að því að ná í sveitajarðir. Þetta getur haft þær afleiðingar, að jarðirnar lendi í eign einstakra manna, jafnvel kaupstaðarbúa og útlendinga. Má í því efni benda á Bræðratungukaupin og álitlegra er það ekki með þá jörð en það, að útlit er fyrir, að hún muni standa í eyði næsta ár. Reykvíkingar leita eftir að ná í jarðir og að hafa makaskifti á þeim og húsum í Reykjavík. Húsin eru vanalega mjög hátt metin og þegar mönnum á pappírnum er boðið mjög hátt verð í jarðir, þá freistast margur til að selja þær.

Af þessu, sem eg hefi tekið hér fram, óttast eg að lögin um sölu þjóðjarða og kirkjujarða geti leitt til þess, að jarðirnar lendi ekki í eign bænda, heldur útlendinga og kaupstaðarbúa.

Eg held að milliþinganefndin hefði gert rétt í því, ef hún hefði samið lög um erfðafestu, og með því trygt ekkju og börnum ábúð og sama leigumála, á meðan þau vildu búa á jörðinni. Eg skal ekki fara langt út í það mál, en eg vil að eins lýsa því yfir, að eg álít, að þessi leið hefði orðið happasælli fyrir alla. Menn hafa haft á móti þjóðjarðaeign, og sagt að þær jarðir væri verst setnar, en það sannar ekkert. Hér held eg fram erfðafestuábúð og verður þá alt annað upp á teningnum. En á það má benda, að landsetar á þjóðjörðum hafa átt að jafnaði við betri leigukjör að búa en annars hefir átt sér stað.

Að endingu vil eg minna á þetta, að nefndin ætti að taka til rækilegrar athugunar ábúðarlögin frá 12. jan. 1884. En eg býst við, að ekki þýði að þessu sinni að koma fram með till. um að nema úr gildi þessi lög, er heimila sölu þjóðjarða.