17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

12. mál, laun sóknarpresta

Sigurður Stefánsson:

Eins og hæstv. ráðherra tók fram, er þessi grein í prestlaunalögunum miður réttlát, og varð, eins og hæstv. ráðherra líka tók fram, ekki nægilega athuguð vegna naumleika tímans á síðasta þingi.

Eg hafði hugsað mér að kom fram með frumv. á þessu þingi um breytingar á sóknartekjum, og þess vegna er það, að meiri hlutinn mun leggja til, að nefnd verði skipuð í þetta mál, er þá gæti athugað önnur frumvörp, er fram kynnu að koma og snerta prestamálið.

Sóknarnefndir og almenningur finna til þess, hvað sóknartekjurnar eru ranglátar. Innheimtuskylda presta hefir verið hvimleið, en hún er sóknarnefndunum líka hvimleið sökum þess, hve þessi gjöld eru úrelt og ranglát.

Milliþinganefndin í skattamálinu hefir samið frumvarp um algerða breyting á þessum gjöldum, sem er mjög til bóta.

Eg get ekki álitið, að tekið sé fram fyrir hendurnar á hinni háttv. stjórn eða skattamálanefndinni, þó að frumv. þetta kæmi nú fram á þinginu.

Eg skal í nafni meiri hlutans leyfa mér að leggja til, að 5 manna nefnd verði skipuð í málið.