11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Ráðherrann (H. H.):

Eg verð að segja það eitt, að mér þykja þessar þingsályktanir að ófyrirsynju fram komnar. Hinir háttv. flutningsmenn ættu fyrst að hafa kynt sér, hvort ekki væri búið að gera þetta, sem í tillögunum stendur, áður en þeir fara að skora á stjórnina að gera það. — Viðvíkjandi vitanum á Grímsey í Steingrímsfirði, skal eg geta þess, að viti á þeim stað yrði mjög dýr, bæði að byggingu og starfrækslu, en gerði á hinn bóginn lítið gagn, enda er þar lítil skipaumferð, og ef byggja ætti vita vestanvert við Húnaflóa, þá væri vafalaust hægt að finna miklu nauðsynlegri vita stað heldur en Grímsey á Steingrímsfirði. Viðvíkjandi vitanum á Skagatá get eg upplýst um| það, að vitaverkfræðingur er búinn að gera áætlun um hann, og í álitsskjali sínu til stjórnarinnar leggur hann til, að sá viti verði einn af þeim, sem allra fyrst verði bygður, svo það stendur ekki á öðru en að fá fé til byggingarinnar á fjárlögunum, og svo er hægt að byrja á verkinu. — Viðvíkjandi brúarstæðum og vegum, er það auðvitað skylda stjórnarinnar að hafa slíkt til, og mér sýnist það eins og vantraust á verkfræðingi landsins, sem hann á þó á engan hátt skilið, að halda það, að hann hafi ekki við hendina með mjög litlum fyrirvara allar mælingar viðvíkjandi brúm og vegum, sem fyrirhugað er að byggja, og eg get fullvissað hinn háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um það, að hann getur fengið allar þær mælingar, er hann óskar um vegi í Húnavatnssýslu og brúargerð á Héraðsvötn hjá verkfræðingi landsins. Þarf ekki annað en óska þess að fá að sjá þær.

Eg álít því, að það sé engin hætta að fella þessar tillögur, því það má fá öllu því sama framgengt án þeirra.