11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Björn Kristjánsson:

Eg hefi leyft mér að koma fram með viðaukatillögu við tillöguna um að stjórnin láti rannsaka ýms brúarstæði og annað og að gera áætlun um það fyrir næsta þing. Fyrri tillaga mín er um, að athugað verði brúarstæði yfir Bleikdalsá á þjóðveginum upp Kjalarnes; hefir oft verið farið fram á, að sú brú yrði lögð. Svo er hinn liðurinn um símalagning frá Keflavík um Hafnir til Reykjaness. Það er almenn ósk sjómanna, að þessi sími sé lagður, með því að framan af vetrarvertíð halda fiskiskipin sig einkum í Hafnasjó og í kringum Reykjanes. Öll skip, sem fyrir Reykjanes fara, gætu sett sig í samband við símann með flöggum, einnig þau, sem fara til Vesturlands. Gætu þá Vestfirðingar vitað samdægurs, hvenær skip þeirra fara fyrir Reykjanes, ef þau fara að degi.

Og mjög oft kæmi það sér vel fyrir skip og farþega, sem leggja út frá Reykjavík, að vita, hvernig viðrar við Reykjanes, því oft er þar alt annað veður en inni í flóanum. Og ef menn vissu það í Reykjavík, hvernig þar viðrar, þá mundu menn oft geta hliðrað sér hjá að lenda þar í ófæru veðri. Eg vona, að viðaukatillögunni verði vel tekið, og að kostnaðurinn við þetta yrði ransakaður, sé það ekki þegar búið, sem eg hefi ekki getað fengið vitneskju um.