11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Sigurður Sigurðsson:

Eg tek undir með hæstv. ráðherra (H. H.) um það, að till. þær, sem hér eru til umræðu séu furðu einkennilegar og enda óþarfar. Það hefir sýnt sig, að búið er að skoða margt af því, sem farið er fram á, að sé skoðað og mælt, og hefði verið hægur nærri fyrir flytjendurna að fá sér upplýsingar um það, áður en þeir fóru á stað. Það er nærri því eins og þeim gangi fordild til. — Það er kunnugt, að landsstjórnin lætur sér ant um að ransaka vegastæði og símalínur, eftir því sem tími vinst til. Ef farið verður fram á frekari eða meiri ransóknir í þessu efni, heldur en þeir munu geta framkvæmt, sem nú eru í þjónustu landsins og þetta hafa með höndum, þá liggur næst að bæta fleiri mönnum við. En það hefir aukinn kostnað í för með sér, sem spara ætti að þessu sinni.

Það er undarlegt að koma með br.till. eins og á þskj. 160, um ransókn brúarstæðis á Bleikdalsá, sem einnig er kölluð Ártúnsá, þegar verkfræðingurinn hefir þegar rannsakað það og gert teikningar af.

Viðvíkjandi tillögu á þskj. 171 frá 1. þm. Rangv. (E. P.), um ransókn brúarstæðis á Þverá, þá er það rétt, sem sá háttv. þm. sagði, að það hefir ekki verið ransakað. Hann sagði einnig, að það gæti líka komið til mála að veita ánni í Markarfljót. En það er alveg bygt í lausu lofti, að auðið muni vera með því fé, sem vér höfum til umráða að framkvæma þetta verk. Og brúargerðin yrði ekki auðveldari með því móti, því að fljótið rennur á söndum, svo sem kunnugt er.

Eg kysi því helzt, að tillögur þessar yrðu teknar aftur.